144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef líka velt fyrir mér þegar ég hef verið að fylgjast núna með umræðunni hvernig hægt er að tryggja starfsfólki sómasamleg laun sem kæmi til með að vinna með notendum þessarar þjónustu og vinna í þessu verkefni. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í umræðunni áðan að verið sé í ákveðnu sveitarfélagi að greiða innan við 3.000 kr. fyrir klukkutímann og af því eigi að greiða gjöld fyrir utan launin, þá óttast ég að það geti verið erfitt, ef upphæðirnar verði ekki hærri en þetta, að fá fólk til að sinna þessu vandamikla starfi sem það vissulega er. Það er í raun og veru mjög sérhæft og vandasamt starf og skiptir miklu máli hvernig fólk velst til þess að vinna við þetta góða verkefni, en það sé þá líka greitt fyrir það miðað við þá ábyrgð sem fylgir slíkri vinnu. Mig langar að heyra aðeins skoðun hv. þingmanns í því efni. Og líka varðandi kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Nú hafa sveitarfélögin borið sig mörg hver mjög illa eftir þennan flutning og talið að ekki hafi nægt fjármagn fylgt með. Telur hv. þingmaður að taka þurfi það upp, ef þetta verður að lögum sem maður vonar í framhaldi af þessu tilraunaverkefni, að endurskoða þetta allt í því samhengi?