144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart fjölda samninga sem áætlað er að verði á næstu tveimur árum, hvort hún telji að gera þurfi kannski fleiri samninga til að sjá hvernig þjónustan virki fyrir ólíka fötlun, hvort ekki þurfi að koma til fleiri samningar svo reynslan nái sem best yfir ólíka fötlun og menn sjái þá hvernig þeir samningar komi til með að ganga upp svo reynslan nýtist þegar lög verða væntanlega sett um þennan málaflokk.

Svo hafa komið fram í umræðunni ákveðnar áhyggjur varðandi það þegar fatlað fólk með samning ætlar að flytja í annað sveitarfélag, að það þurfi þá að byrja frá grunni að reyna að komast inn á slíkan samning ef það ákveður að flytja búferlum. Hvort þurfi þá ekki að skoða það í því samhengi að ekki sé verið að binda fólk ákveðnum átthagafjötrum ef það kýs að flytja á milli sveitarfélaga og er komið með samning í því sveitarfélagi sem það býr, og hvort hv. þingmaður telji að það sé eitthvað sem verði að vera auðvelt fyrir viðkomandi en ekki höft.