144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í ágætri greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu, skrifstofa opinberra fjármála gerir hér ágæta greinargerð, er einmitt bent á að gera þurfi ráð fyrir fjármagni á árinu 2016 og svo í framtíðaráætlun þurfi að gera ráð fyrir að þessi þjónusta verði lögfest. Hæstv. ráðherra félags- og húsnæðismála kom hér í ræðustól í dag og var mjög ákveðin í því að það væri á dagskrá að lögleiða þessa þjónustu en það þyrfti lengri tíma til að fá góða reynslu til að byggja á löggjöf sem héldi. Því geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé jafn ákveðin í því að setja niður fjárhagsáætlun, bæði til næsta árs og eins inn í framtíðina svo að það megi vinna almennilega að þessu starfi, því að auðvitað er hægt að skemma þetta allt saman með slæmri fjárhagsáætlun. Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á þetta, sem er gott, og hv. velferðarnefnd mun síðan vinna með þær upplýsingar sem þar standa.

Jú, það er rétt að sveitarfélögin eru svo sannarlega misjafnlega í stakk búin til að taka á hlutunum og ég veit ekki betur en að það standi einmitt til að jöfnunarsjóður komi inn í þau verkefni og ég treysti á að svo sé og jafnframt að hv. velferðarnefnd fari yfir það, fjárhagslegu hlið málsins ásamt því að rýna vel í faglega hlið.