144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir ræðuna og eins það að minna á mannréttindavinkilinn sem ég held að sé mjög mikilvægur. Við megum alls ekki gleyma þeim vinkli þegar við erum að tala um útfærslu og skiptingu á kostnaði milli ríkis og sveitarfélaga í þessu máli.

Hv. þingmaður talaði um blandaða leið og að val þyrfti að vera um fleiri leiðir en notendastýrða persónulega aðstoð, að það sem kallað hefur verið hefðbundin þjónusta þyrfti einnig að vera í boði, og mig langar að segja í því samhengi að þar þurfum við líka að hafa mannréttindavinkilinn að leiðarljósi, alltaf.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að nú hefur hann nokkra reynslu af sveitarstjórnarmálum, um atriði sem svolítið hefur verið rætt hér í dag og áhersla lögð á að hv. velferðarnefnd skoði þegar Samband íslenskra sveitarfélaga kemur á hennar fund, þ.e. hvort gera þurfi einhvers konar verkferla eða viðmið til að nota þegar fólk, sem er með notendastýrða persónulega aðstoð, er að flytjast á milli sveitarfélaga. Einstaklingurinn gerir samning við sitt sveitarfélag og ef hann flytur í annað sveitarfélag þarf hann að byrja frá grunni og gera nýjan samning. Mig langar að heyra hver er sýn hv. þingmanns á þetta.

Er hann sammála því að við þurfum að gera einhvers konar verkferla svo (Forseti hringir.) að ekki þurfi að finna upp hjólið í hvert skipti sem einhver flytur?