144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þetta mikilvæga mál. Það kemur í ljós þegar fleiri taka til máls að mikil samstaða er um grundvallarhugmyndir á bak við þetta mál. Samtímis er fullt af spurningum sem vakna um framkvæmdina og líka það hvernig þessu tímabundna verkefni muni reiða af. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra og er gríðarlega mikilvægt að það ferli er eingöngu til að undirbúa lagasetningu. Það liggur alveg fyrir að það á að fara í lagasetningu um varanleika NPA-þjónustu. Það finnst mér mikilvæg forsenda.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um stöðuna í dag vegna þess að hún þekkir vel til á landsbyggðinni. Við erum bæði þingmenn fyrir landsbyggðarsvæði. Svæðin þar eru býsna stór, eins og á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra þar sem mjög góð þjónusta fyrir fólk með fötlun hefur verið í þróun í langan tíma.

Mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns um jafnræðið, hvort okkur hafi tekist að hafa bæði framboð á samningum nægilega mikið og tryggja gæðin. Hv. þingmaður kom inn á það sem einn af þeim punktum sem skiptu miklu máli varðandi framhaldið að tryggja jafna þjónustu, gæði og fá starfsfólk til þessarar þjónustu.

Hins vegar langar mig að spyrja um umsýsluna, þ.e. aðstoð við starfsmannahald, hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að við getum leyst það. Það er mikilvægt að það sé gert með einhverjum hætti þannig að hver og einn einstakur notandi sé ekki háður því að hafa með sér heila skrifstofu heldur geti notið ráðlegginga og aðstoðar til að þróa aðferðir og við vinnu að samningagerð (Forseti hringir.) … og til að tryggja (Forseti hringir.) að menn þurfi ekki að (Forseti hringir.) eyða mikilli vinnu og orku í gerð þessara samninga.