144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Ég vil koma inn í umræðuna sem hefur verið mjög jákvæð og upplýsandi um sérstaklega það málefni sem snýr að notendastýrðri persónulegri aðstoð og ég vil ræða þann þátt frumvarpsins. Hér er um að ræða breytingu á lögunum sem fram kemur í 3. og 4. gr. og snýr að þessari þjónustu. 4. gr. snýst um að framlengja þetta mikilvæga samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðra.

Þetta verkefni var innleitt með lögum 2010 og hófst 2011 og stóð til að festa það í lög fyrir síðustu áramót. Lagt er til í frumvarpinu að það verði framlengt út árið 2016. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að lagt hafi verið upp með það markmið í þessu verkefni að þróa og skipuleggja það með þarfir og forsendur notandans að leiðarljósi svo að notandinn geti verið eigin herra og verkstjóri en um var leið reynt að samræma þjónustuna þannig að hún yrði sem heildstæðust á milli ólíkra þjónustukerfa.

Í bráðabirgðaákvæði með lögunum frá 2010 er lögð áhersla á fjárhagslegt og faglegt mat, að það fari fram samhliða því að verkefnið sé þróað. Þá var skipuð verkefnisstjórn sem falið var að fylgja þessu verkefni og mati eftir og stefnt á, eins og fram kom og ég kom inn á áðan, að því yrði lokið fyrir síðustu áramót. Hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu fyrr í umræðunni að ég færi fyrir starfshópi sem hæstv. ráðherra skipaði í febrúar 2014. Starfshópurinn hefur það verkefni að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta er eins og það hljómar viðamikið verk, en ég vil segja það hér í umræðunni að vinnan hefur gengið virkilega vel. Í þessum starfshópi er mikil fagþekking og fyrst og fremst þess vegna hefur þessu miðað vel. Það er ætlan hæstv. ráðherra að framlengja vinnu hópsins og klára þetta verkefni. Það er komið á þann rekspöl.

Í tengslum við þá vinnu tel ég afar skynsamlegt að fresta lögfestingu á þessu þróunarverkefni, notendastýrðri persónulegri aðstoð. Það má segja að það séu einkum tveir þættir sem segja mér að það sé skynsamlegt. Annars vegar er það heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðra og félagsþjónustulögin og hins vegar mat verkefnahóps um notendastýrða persónulega aðstoð á því að hið fjárhagslega og faglega mat sé ekki fullreynt. Þá má líka benda á og kemur fram í greinargerð í frumvarpinu að fyrstu samningarnir voru ekki gerðir fyrr en 2012, og jafnframt að þessi þjónusta fór í raun og veru ekki í gang, eða fyrsti samningurinn hjá Reykjavíkurborg, fyrr en 2013. Ég tel því afar skynsamlegt að fara þá leið sem hæstv. ráðherra er að fara hér og fresta þessu til að það verði komin nægileg reynsla á verkefnið og lagalegur grundvöllur verði tryggður þannig að við getum fest notendastýrða persónulega aðstoð í sessi eins og lagt var upp með. Það er afar mikilvægt.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir lauk nýlega ræðu sinni og nefndi samning Sameinuðu þjóðanna. Það má segja að hann kristalli mikilvægi málsins og hversu mikilvægt lífsgæðamál þessi þjónusta er og réttindamál sömuleiðis.