144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna og upprifjunina, fyrir að fara yfir hvernig þessi saga er og hvernig þessu var háttað. Í góðærinu þegar tekjurnar streymdu inn í ríkissjóð voru málefni fatlaðs fólks einn af þeim málaflokkum sem ekki nutu sérstaklega þess góðæris og má í raun furðu sæta að það hafi fyrst verið í björgunarstarfi eftir hrunið sem sá málaflokkur var settur í fókus í stjórnmálunum. Með mjög breiðri pólitískri samstöðu tókst að flytja málaflokkinn yfir til sveitarfélaga. Einnig tókst að setja á lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk auk þess sem NPA-verkefninu var komið á, sem þá var tilraunaverkefni. Nú erum við að framlengja þetta tilraunaverkefni og okkur finnst auðvitað súrt í broti að það sé ekki lögfest.

Ég get skilið að það taki tíma. Þetta er stórt verkefni. Það er nokkuð flókið og um er að ræða nýja nálgun. En það er óöryggið fyrir þá sem nota þjónustuna eða sækjast eftir sjálfstæðu lífi, sem við viljum auðvitað að sem flestir geri, sem er verst. Þeir búa við það á meðan ekki er hægt að treysta því að verkefnið verði lögfest. Fyrst verið er að fresta því núna þá vakna auðvitað áhyggjur af því að því verði frestað aftur og eins af því að fjármuni vanti (Forseti hringir.) í verkefnið. Hvert er (Forseti hringir.) álit hv. þingmanns á því?