144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú með þetta mál eins og svo margt fleira, ef við færum að rifja það upp, að það þurfti kreppuna og hrunið og þá ríkisstjórn sem stóð á brunavaktinni til að gera marga merkilega hluti, og einn af þeim var þetta, að klára þetta verk sem menn voru búnir að vera með í höndunum ég man ekki hvað lengi eða hversu margar nefndir voru búnar að gaufa í þessu. En menn brettu upp ermar og kláruðu þetta á um það bil einu ári frá síðari hluta árs 2009 og inn á árið 2010. Ég man eftir fundum þar sem við sátum með öllum samtökunum og veltum upp spurningunni: Er núna rétti tíminn til að gera þetta? Ég sagði sem svo: Ef við trúum á að það verði til góðs, sé gott fyrir málaflokkinn, þá gerum við það og einmitt núna því að ef það má verða til þess að verði betur staðið að þjónustunni og fatlaðir fái meira út úr því en hitt, þá er allra síst tíminn til að bíða með það núna. Og við gerðum það.

Já, ég er sama sinnis og hv. þingmaður. Ég hefði gjarnan viljað sjá að þetta mál væri lengra komið og auðvitað hefði maður gjarnan viljað, af það er nú einu sinni komið árið 2015, að við værum nú að frá því að lögfesta rammann um þetta mál til frambúðar, NPA og það sem þarna er á ferðinni. Ég get líka tekið undir að mér finnst svolítið ónotalegt að heyra þann tón í kostnaðarumsögn fjármálaskrifstofu opinberra fjármála, sem hér er, með leyfi forseta:

„Þá liggur ekki fyrir hvort eða hvernig eigi að mæta 85 millj. kr. viðbótarfjárþörf vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð á árinu 2016 verði fjöldi þeirra áþekkur og á árinu 2015.“

Ég endurtek orðalagið „hvort eða hvernig eigi að mæta“ þessari þörf. Það er svolítið ónotalegt orðalag. En ég treysti því nú samt að (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að þessu verði bjargað.