144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður er að inna mig eftir skilningi mínum á orðalaginu í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins þá gæti ég látið mér detta í huga að það væri nú annað sem menn væru að segja þarna, passið ykkur nú, það hefur enginn lofað neinni fjárveitingu í þetta enn þá, alveg eins og að þetta sé bara vinsamleg áminning um að það þurfi að muna eftir því að skutla þessu inn í næsta fjárlagafrumvarp. En við höfum talsverð tök á því að fylgjast með og passa upp á að þetta verði í lagi. Eins og ég nefndi væri hyggilegt að krefja hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutann um afstöðu til þessa í tengslum við umfjöllun um þetta mál.

Varðandi tekjustofna sveitarfélaganna og útsvarstekjurnar þá er það að vísu rétt sem hv. þingmaður nefndi að sá tekjustofn lak talsvert hjá sveitarfélögunum af einni ástæðu, þ.e. þegar minni atvinnurekendur hættu í stórum stíl að gera atvinnurekstur sinn upp í eigin nafni og stofnuðu einkahlutafélög. Þetta fór illa með mörg sveitarfélög á ákveðnu árabili, t.d. sjávarútvegssveitarfélög þar sem menn fóru unnvörpum að breyta útgerð sinni, trilluútgerð sinni, í einkahlutafélög, það voru bara kennitölur um borð. En við fórum hins vegar í aðgerðir á árinu 2009 og 2010 sem stoppuðu verulega upp í þetta gat. Við hertum verulega reglurnar um arðgreiðslur út úr einkahlutafélögum og settum þak á þær, ef þær fóru yfir ákveðin mörk urðu menn að telja sér það til tekna sem launatekjur. Því miður kom svo núverandi ríkisstjórn og felldi það niður. Við hertum líka reglurnar um reiknað endurgjald þannig að menn gætu ekki bara skammtað sér hlægilega lág laun út úr rekstri af þessu tagi, þeir skyldu reikna sér sómasamlegt endurgjald út úr sínum félögum. Það hefur verulega bætt stöðuna á nýjan leik, að minnsta kosti held ég að lekinn hafi að mestu leyti stöðvast nema að hann sé kannski að byrja aftur af því menn tóku 50%(Forseti hringir.) arðgreiðsluþakið út.