144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ræðuna og vil taka undir það með henni að kostnaðarmatið þegar kemur að NPA er alveg gríðarlega flókið því að það eru svo óskaplega margir þættir sem við þurfum að taka með í reikninginn. Ég hef því miður engar patentlausnir á því hvernig á að framkvæma það eða hvar eigi í rauninni að draga mörkin við það hvað sé metið sem kostnaður og hvað dragi úr kostnaði við þjónustuformið. Ég held að við þurfum að hafa í huga að um er að ræða þjónustuform sem er alltumlykjandi í lífi fólks og varðar þess vegna samfélagið allt. Það er allt í rauninni undir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég veit að hún þekkir talsvert til notenda NPA og hefur spáð í þessi mál og því langar mig að heyra sjónarmið hennar. Það eru ekki allir sem hafa áhuga á því að vera sjálfir í rekstri. Hvað finnst henni um það þegar þjónustunni er útvistað til einkaaðila sem taka sér hagnað af því að sjá um umsýsluna og hluti af kostnaði notandans fer í að greiða þessum milliliðum? Þá er ég að hugsa um gróðann sem kæmi út úr því. Mig langar að heyra (Forseti hringir.) skoðun hv. þingmanns á því.