144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið bárust fregnir af því frá einum þingmanna Sjálfstæðisflokksins að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sæti fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vegna þess að í því fælist ákvæðið um þjóðareign á fiskimiðunum, þeirri grundvallarauðlind sem við byggjum afkomu okkar á í ríkari mæli en öðrum. Þingmaðurinn lét þau orð falla að í þessu fælust sovéskar breytingar.

Ég spyr formann Sjálfstæðisflokksins: Er þetta rétt? Er það raunverulega þannig að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sitji fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Og er það raunverulega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi markað þá afstöðu að hann standi ekki með grundvallarhugmyndinni um þjóðareign á auðlindum og sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni? Er það raunverulega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig ekki bundinn af því sammæli sem orðið hefur hér á undanförnum árum og áratugum í vaxandi mæli og hófst með starfi auðlindanefndar undir forustu Jóhannesar Nordals um að við ættum að líta svo á að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar?

Það er mjög mikilvægt að fá þetta á hreint. Það er svolítið skrýtið ef umræða um þetta á sér stað í einhverjum afkimum milli stjórnarflokkanna eða fulltrúa þeirra og hún kemur ekki inn á Alþingi. Ég tel eðlilegt að ef Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að í hugmyndinni um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni felist sovésk stefnubreyting leyfi hann frumvarpi um það að koma inn í þingið, haldi þeirri skoðun sinni fram í þingsölum, vinni henni hér fylgi og fái að reyna hvort það sé þingmeirihluti fyrir þeirri afstöðu.