144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins meinar eitthvað með því að hann vilji spinna áfram þann þráð sem var spunninn í sáttanefndinni á síðasta kjörtímabili verður hann að lesa tillögurnar sem þar varð þó samstaða um. Grunnforsenda þeirra var þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá landsins. Það er forsendan fyrir öllu tali um einhverja sátt. Hvar er frumkvæði ríkisstjórnarflokkanna í því efni? Hvar er frumkvæði Sjálfstæðisflokksins í því efni?

Við sjáum líka að á samráðsvettvangi um aukna hagsæld koma allir færustu efnahagssérfræðingar þjóðarinnar og flytja okkur boðskap um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi byggt á fyrningarleið eins og Samfylkingin hefur margsinnis kallað eftir.

Ég hlýt nú að spyrja: Um hvað á sáttin að snúast? Það er alveg ljóst af hálfu okkar í Samfylkingunni að við munum alltaf standa með lagaákvæðum sem styrkja þjóðareign á auðlindinni og við köllum eftir því að sjálfstæðismenn efni fyrirheitið um ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. (Forseti hringir.)