144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

lánveiting Seðlabanka til Kaupþings.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ef menn gæfu sér tíma til að lesa það sem skrifað hefur verið þessa daga, þessa mánuði í öðrum löndum þá held ég að það kæmi mörgum á óvart að menn létu ekki stífar verklagsreglur þvælast fyrir réttum ákvörðunum á þeim tíma í jafnvel stórum löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi. Aðalatriðið var að þeir sem væru ábyrgir fyrir þeim málum sem þar voru undir kæmu að málinu.

Það sem mér finnst vera miklu áleitnari spurning vegna niðurstöðu Hæstaréttar á síðasta ári er sú spurning hvort með þeim saknæma hætti sem Hæstiréttur hefur nú fjallað um hafi stjórnvöldum verið gefið viðbótartilefni til að koma bankanum til bjargar sem gæti aftur leitt af sér mögulega bótakröfu ríkisins á hendur slitabúinu. Það er eitthvað sem ég held að við ættum að taka til skoðunar.