144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

úthlutun byggðakvóta til ferðaþjónustuaðila.

[15:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi í upphafi, að óvissa væri í sjávarútveginum, þá held ég að ekki sé hægt að halda því fram að óvissa sé þar uppi. Menn vilja hins vegar gjarnan koma fram með breytingar eins og rætt var í fyrri fyrirspurn hér í dag. Grundvöllur þess er, sem ég hef ríka áherslu á, að víðtæk sátt sé um það, að fleiri flokkar en stjórnarflokkarnir séu sáttir við það. Ég gat ekki betur heyrt en að formaður Samfylkingarinnar væri að opna á að það væri margt jákvætt sem þar væri á ferð; ef sameiginlegur skilningur væri á því að auðlindin sé í þjóðareigu væri hægt að spinna þann þráð sem menn bjuggu til á síðasta kjörtímabili og halda áfram inn í þetta kjörtímabil.

Varðandi fyrirspurnina um byggðakvótann þá get ég ekki svarað fyrir svona einstök tilfelli. Hér er byggðakvótanum úthlutað samkvæmt almennum reglum, lögum í landinu, og sveitarfélögin geta síðan verið með sínar reglur. Ef þær reglur samrýmast lögunum þá er auðvitað ekkert við ríkisvaldið að eiga hvað það varðar. Ef menn hafa gert athugasemdir við það þá senda menn slíkar athugasemdir til ráðuneytisins, sem er oft gert, og farið er yfir það hvort reglur viðkomandi sveitarfélags séu í samræmi við laganna hljóðan eður ei. Þar sem þetta hefur, eins og hv. þingmaður sagði, viðgengist í einhver ár er það væntanlega vegna þess að þær reglur samrýmast lögunum.

Hvort til eigi að vera sérstakur pottur fyrir þessa nýsköpun, sem er auðvitað innan ferðaþjónustunnar, er svo aftur á móti áhugavert mál sem hægt væri að taka upp og ræða sérstaklega.