144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

aðgerðaáætlun í málefnum fátækra.

[15:26]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég veit að við deilum áhyggjum af þessum hópi, þeim hópi sem býr við mesta fátækt hér á Íslandi. Þegar fyrri velferðarvaktin skilaði af sér var þetta ein af þeim tillögum sem hún kom með til ráðherra. Í framhaldi af ákvörðun um að skipa velferðarvaktina upp á nýtt ákvað ég að breyta aðeins áherslunni hjá nýrri velferðarvakt og óska eftir því að þau kæmu með tillögur sem sneru sérstaklega að fátækasta hópnum í samfélaginu.

Ný velferðarvakt hefur nýlega skilað af sér fyrstu tillögunum sem snúa að þessum hópi og þar eru tillögur sem snúa að barnabótum og barnatryggingum, viðmiðum til lágmarksframfærslu, húsnæðismálum; grunnþjónustu, samhæfingu, að það verði einn samhæfingaraðili fyrir mál sem snúa að sveitarfélögunum, og einnig er lögð áhersla á að vinna með frjálsum félagasamtökum að því að takast á við þetta verkefni.

Velferðarvaktin heldur áfram að vinna að þessu verkefni og ég var líka í tengslum við þetta að taka við tillögum í dag sem verkefnisstjórn um fjölskyldustefnu var að skila af sér en þar var sérstaklega hugað að barnafjölskyldunum. Ég vil nota tækifærið til að þakka velferðarvakt sérstaklega fyrir þá vinnu sem snýr að félagsvísunum sem hafa komið fram og verið birtir fjórum sinnum. Það er eiginlega fyrst þar sem við erum að taka saman með heildstæðum hætti hvernig staða fólks er út frá félagslegum þáttum og þar eru þær tölur sem hv. þingmaður var að vísa til. Þær koma þarna fram. Við höfum nú miklu betri upplýsingar og getum þar af leiðandi betur beint aðgerðum í átt að þeim sem virkilega þurfa á því að halda. Ég held að við höfum séð vott af því við síðustu fjárlagagerð þar sem verið er að breyta tekjuviðmiðum varðandi barnabætur og líka varðandi vaxtabætur.