144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

aðgerðaáætlun í málefnum fátækra.

[15:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka svörin en ég er að kalla eftir því hvort komin sé fram tímasett aðgerðaáætlun. Ég hef líka miklar áhyggjur af öryrkjum. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þátttaka almennings í kostnaði við lyf hefur aukist og ég veit um svo marga sem hafa ekki efni á því að taka lyfin sín út. Ég veit um svo marga og ég fæ bréf á hverjum einasta degi frá fólki sem nær ekki að lifa af þeim bótum sem það á rétt á út mánuðinn. Um miðjan mánuð er fólk farið að hafa áhyggjur af því að geta ekki leyst út lyfin sín, að geta ekki boðið börnunum sínum upp á lífskjör sem við eigum að bjóða öllum upp á hér í þessu landi. Ég óska eftir því að fá betri svör. Ég fagna því að önnur velferðarvakt sé í gangi en það er þá heilt ár sem hefur glatast. Ég óska eftir því að fá skýrari svör við þessum tillögum og hvernig (Forseti hringir.) bregðast eigi við þeim í formi lagasetningar.