144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

Hafrannsóknastofnun.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. 6% aukning á þessum lið eru óverulegar fjárhæðir í þessu samhengi. Við erum tala um tugmilljarða hagsmuni, við erum að tala um hagsmuni sem lúta að því hvort vöxtur verði í efnahagsstarfseminni á Íslandi á þessu ári eins og vonir stóðu til. Það sem við heyrum er að ef menn hefðu haft betri upplýsingar hefðu þeir getað gefið loðnukvótann út fyrr og nýtt skip, sem því miður nýttust ekki, allt að tveimur vikum fyrr en raunin varð til að ná þeim afla á land.

Ég gagnrýni hæstv. fjármálaráðherra líka fyrir það hvernig hann hefur farið með fjárveitingar til rannsókna, t.d. með því að láta kvóta fyrir á annað hundrað milljónir í hendurnar á tveimur einkafyrirtækjum í rannsóknir og kostnaðurinn við þær var ekki nema um það bil 25 milljónir. Það finnst mér illa farið með þá fjármuni sem voru þó til ráðstöfunar til rannsókna á þessu sviði.

Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvort það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn, þegar ljóst var að vonir væru um að við fengjum vöxt í efnahagslífinu vegna aukinnar loðnu, (Forseti hringir.) að það skorti á rannsóknir, hvort menn hafi ekki rætt það að skjóta strax út fjárveitingu og setja menn til rannsókna eins fljótt og kostur væri.