144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það er margt sem ratar inn á borð þingmanna sem okkur er mikilvægt að kunna á skil. Ekki er síður mikilvægt fyrir okkur að glöggva okkur á umræðunni í þjóðfélaginu, bæði fyrr og nú. Þannig rak nýverið á fjörur þessa þingmanns áhugavert útvarpserindi eftir Gunnar Benediktsson, skáld og þjóðmálafrömuð. Í þessu erindi sem ber titilinn „Hvernig förum við með peningana okkar“, segir m.a., með leyfi forseta:

„Við Íslendingar virðumst vera haldnir takmarkalítilli fyrirlitningu og kæruleysi gagnvart fjármunum okkar um leið og við höfum unnið okkur upp úr sárustu neyð. Við skulum gera okkur það ljóst að í þessu efni er um hreina ómenningu að ræða. Sumum finnst þessi afstaða okkar vera óeðlileg; af neyð undangenginna alda hefði okkur átt að lærast nýtni og vandleg aðgæsla okkar veraldlegu gæða, en fyrri alda neyð er einmitt ástæðan fyrir kæruleysi okkar. Við komumst svo skyndilega og óvænt upp úr okkar eymd og volæði að á fáum árum fjarlægist hún svo að hún verður ljótur draumur sem við reynum af öllum mætti að gleyma.“

Þetta útvarpserindi var flutt 29. ágúst 1948, en grunnstefið gæti eins hafa komið fram í gær. Það vantar ekki að það er nóg að gera hér í þessum sölum og margt að ræða, en í eyrum margra verða aukatriðin þó oft æði fyrirferðarmikil í umræðu okkar. Ég sakna dýpri umræðu um stóru grundvallarmálin og stóru myndina á Alþingi. Guð veit að það er mikill áhugi á þeim og gerjun í samfélaginu. Ég veit ekki hvaða leið er best til að þetta geti orðið, en hvet þingheim til dáða. Ekki veitir af.