144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Vegagerðin á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit, þ.e. frá Þorskafirði að Skálanesi, er brýnasta vegagerðarverkefnið á Íslandi. Það hefur algjöran forgang og hefur það líka að mati núverandi stjórnvalda. Ég hygg að í rauninni sé um þetta þverpólitískur stuðningur. Fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra setti á laggirnar starfshóp m.a. með aðkomu heimamanna en líka með þátttöku og í góðu samráði við okkur þingmenn Norðvesturkjördæmis, sem vann að því að kortleggja þá kosti sem væru uppi í stöðunni. Málið var unnið í mjög góðu samráði við okkur og niðurstaða þessa hóps var sú að skynsamlegast væri að leita leiða til þess að endurupptaka málið eins og það stendur núna, þ.e. að leita leiða til þess að fram fari efnislegt mat á þeim kosti sem Vegagerðin hefur lagt til varðandi vegstæði út með Þorskafirðinum að vestanverðu, um það svæði sem oft er kennt við Teigsskóg, og síðan með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar og einnig Þorskafjarðar. Þetta er að mínu mati mjög skynsamleg nálgun. Niðurstaðan í því máli ætti að geta legið fyrir núna fyrir vorið.

Í mínum huga er ljóst fyrir löngu að málið snýst ekki um og hefur ekki snúist um náttúruverndarspurningar. Síst á það við núna þegar Vegagerðin hefur í rauninni hannað vegstæði sem hefur óveruleg áhrif á gróðurfarið á því svæði og þar að auki hefur Vegagerðin bent á að unnt er að margfalda skógarmagnið á svæðinu sem eins konar mótvægisaðgerðir gagnvart þeim framkvæmdum sem eru óhjákvæmilegar á þessu svæði.

Sú leið sem við erum sammála um að farin yrði með þessari endurupptöku útilokar auðvitað ekki neina beina lagasetningu ef þess gerist þörf. Afstaða mín til þess máls er þess vegna algjörlega óbreytt. Ég er hins vegar sammála því að við látum reyna á þessa leið sem við urðum öll sammála um á síðasta ári, að endurupptaka málið til þess að það verði tekið til nýrrar efnismeðferðar í ljósi breyttra aðstæðna.