144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til eru fimm meginkenningar um tilgang refsinga, svo sem fangelsisrefsinga og sekta: Í fyrsta lagi er það öryggi samfélagsins, í öðru lægi eru það fælingaráhrif, í þriðja lagi skaðabætur, í fjórða lagi hefnd og í fimmta lagi betrun, þ.e. að haga málunum þannig að viðkomandi aðili sé ólíklegri til að brjóta aftur af sér í framtíðinni.

Þegar heilt samfélag ákveður að refsa einstaklingi er mikilvægt að markmiðið sé skýrt. Betrun felur meðal annars í sér að föngum sé gefinn kostur á vinnu og námi innan fangelsis og einhvers konar aðstoð við að halda sér á réttri braut að afplánun lokinni. Það hlýtur að vera mikilvægasta markmiðið.

Því miður ræður hefndarþorsti of oft umræðunni um fangamál. Sumum kann að finnast að hugmyndir um betrun séu einhvers konar ölmusa í þágu fólks sem ekki á slíkt skilið. En svo er ekki. Aukin afbrot valda ekki bara beinum skaða heldur eru einnig ógn við borgararéttindi að því leyti að með auknum afbrotum verður meiri þrýstingur á aukið eftirlit með almenningi, víðtækari rannsóknarheimildir, harðari refsingar og jafnvel lægri sönnunarbyrði eða alla vega er fólk að kalla eftir einhverju slíku.

Betrun fanga er því ekki einungis mikilvæg til að draga úr glæpum almennt, sem ætti þó að vera augljóst, heldur einnig til verndar og eflingar réttindum almennings gagnvart yfirvöldum. Það er sameiginlegur hagur okkar allra að fangelsiskerfið virki. Refsingin sjálf á ekki að vera sjálfstætt markmið heldur á markmið refsingarinnar að vera betrun. Því legg ég til að betrun verði höfð að leiðarljósi við ákvörðunartöku Alþingis í fangamálum í framtíðinni umfram það sem verið hefur. Betrun, betrun og aftur betrun.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.