144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Forseti. Ummæli hæstv. umhverfisráðherra um að milda beri þýðingar tilskipana Evrópusambandsins hafa vakið helsta andstæðing Framsóknarflokksins af værum blundi. Hver er sá andstæðingur? Jú, það er umræðan, en hún er komin í gang að nýju og hefur ekki verið hliðholl Framsóknarflokknum undanfarin missiri. Það er auðvitað ekki vegna þess að hugmyndir þeirra, orð og athafnir eigi ekki upp á pallborðið hjá níu af hverjum tíu Íslendingum, heldur vegna þess bara hversu makalaus umræðan er.

Ég skil vel að framsóknarmenn séu orðnir pirraðir út í EES. Þeir eru á móti inngöngu í Evrópusambandið og byggja þá skoðun sína á væntumþykju um fullveldi Íslands. Ég hef að undanförnu farið upp í atkvæðaskýringar þegar greidd eru atkvæði um EES-mál hér í þinginu til þess að horfa framan í þessa útverði hins íslenska fullveldis á meðan þeir greiða atkvæði með löggjöf sem samin er í Brussel af Evrópusambandinu án aðkomu íslenskra þingmanna þar. Það er skemmst frá því að segja að þeir eru í framan eins og fólk sem gengur í gegnum haglél, að minnsta kosti á meðan á minni atkvæðaskýringu stendur. Svo halda þeir áfram í einlægri trú og fullkominni afneitun um að þeir séu að verja hér fullveldið.

Ég skora því á þá að taka af skarið og fylgja sannfæringu sinni og flytja hér mál á grunni hennar um breytingar á tilskipunum um Evrópusambandið, um sjávarútvegsmál, eða hefur umræðan borið þá ofurliði?

Ég segi fyrir sjálfan mig og fyrir minn flokk: Virkjum fullveldið innan Evrópu. Tökum þátt í að móta sameiginlega löggjöf okkar heimshluta. Göngum í Evrópusambandið.