144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Umræðan í vikunni fyrir kjördæmaviku snerist meðal annars um kjaramál og þá mátti heyra á hæstv. fjármálaráðherra að honum fyndist heldur lítið koma til þess að hækka mætti laun fólks í lægstu launaflokkunum án þess að hækkunin smitaðist út um allt launakerfið. Eina ferðina enn varpar hann og ríkisstjórnin ábyrgðinni á efnahagsstöðugleika á herðar launafólks á almennum markaði.

Þetta sagði hæstv. ráðherra skömmu eftir að ritað var undir samkomulag við lækna um verulegar launahækkanir og meira að segja undirrituð sérstök viljayfirlýsing stjórnvalda og lækna, ekki stjórnvalda og heilbrigðisstarfsfólks heldur stjórnvalda og lækna, um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Nær hefði verið, í framhaldi af launasamningunum við lækna, að ná samkomulagi við þá um breytingu á verkaskiptingu heilbrigðisstéttanna innan heilbrigðiskerfisins. Verkaskiptingin sem nú er kostar nefnilega mjög mikla peninga.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins eru sammála hæstv. fjármálaráðherra og segja að ekki sé unnt að borga almennu launafólki laun sem nálgast það að vera sambærileg við laun annars staðar á Norðurlöndunum vegna þess að framleiðni fyrirtækjanna hér er minni en þar. Það er löngu sýnt fram á það að fylgni er á milli langs vinnudags og framleiðni. Því lengri sem vinnudagurinn er, því minni er framleiðni starfsfólksins. Er ekki rétt að þeir sem reka fyrirtækin ráðist að rót vandans og borgi dagvinnulaun sem fólk getur lifað af? Þá eru mestar líkurnar á að framleiðni aukist og allir hagnist, launamenn og fyrirtækin.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin og þeir sem stjórna fyrirtækjunum þurfa að hugsa út fyrir kassann, annars breytist hér aldrei neitt.