144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Róberts Marshalls hér áðan er rétt að minna á að þegar við skoðum fullveldið og tengsl okkar við önnur ríki þá er grundvallarmunur, bæði formlegur og efnislegur, á stöðunni samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og aðild að Evrópusambandinu. Það er grundvallarmunur þar á, bæði formlega og efnislega.

Vissulega er það svo að með tvíhliða samningi, sem byggir á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins, þurfum við eftir ákveðnum leikreglum að aðlaga löggjöf okkar að reglum Evrópusambandsins. Það gerist þó ekki nema fram fari löggjafarstarf hér og möguleikar til að hafa áhrif þar á eru allnokkrir þó að þeir hafi ekki verið nýttir sem skyldi. Það er líka fyrir hendi ákveðinn neyðarhemill eða bremsa sem við getum gripið til ef slíkir hagsmunir eru í húfi að það borgi sig. Með inngöngu í Evrópusambandið væru þessir hemlar og sú aðkoma löggjafans sem þó er hér fyrir hendi varðandi innleiðingu ESB-tilskipana með allt öðrum hætti og áhrifavald okkar að því leyti minna.

Við getum látið það fara í taugarnar á okkur frá degi til dags hér í þinginu þegar hingað koma tilskipanir sem okkur finnst lítið erindi eiga við okkur. Svarið við því er hins vegar ekki að gleypa allan pakkann eins og hv. þm. Róbert Marshall virðist vilja, að framselja þá vald á fleiri sviðum ef svo má að orði komast. Það er ekki svarið. (Forseti hringir.) Og vonin um hið mikla áhrifavald Íslands við borðið (Forseti hringir.) hjá Evrópusambandinu er (Forseti hringir.) tálsýn.