144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytta hugtakanotkun í íslenskri löggjöf. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga á málefnasviði sex ráðuneyta. Þá felur frumvarpið í sér brottfall laga um aðstoð til fatlaðra, nr. 25/1962, með síðari breytingum og brottfall ákvæðis í tilskipun frá 23. mars 1927.

Framlagning frumvarps þessa er hluti af stærra verkefni sem er fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með þingsályktun nr. 43/140 frá árinu 2012, um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks. Setti Alþingi fram fjölda verkefna sem koma áttu til framkvæmda fyrir árslok 2014. Um þetta verkefni er þingmönnum vel kunnugt og er verulega mikið að vöxtum. Það var hér til umræðu nýlega og ég vil í því sambandi taka fram að ráðuneytið er að vinna að því að ganga frá þessum samningi. Þetta er verulega umfangsmikið verkefni og þetta frumvarp hér er liður í því að við komumst áfram með þetta. Þetta ártal, 2014, gengur að sjálfsögðu ekki upp. Við sjáum fram á að þetta taki lengri tíma og ég bið þingheim að sýna því skilning að þetta er verkefni af þeim toga. Ég mæli væntanlega seinna í vor fyrir frumvarpi um breytingu á lögræðislögum sem snýr líka að þessu. Svo eru fleiri atriði sem þarf að ganga frá. Á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar hefur innanríkisráðuneytið leitt vinnu samstarfsnefndar ráðuneyta með virkri aðkomu sveitarfélaganna og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Verkefni nefndarinnar er að samhæfa aðgerðir til að tryggja að lagaumhverfið verði þannig að viðmið samningsins náist og hægt verði að fullgilda hann.

Ráðuneytin hafa farið yfir löggjöf hvert á sínu sviði og greint hvers lagabreytingarákvæði samningsins krefjast. Yfirferðin leiddi meðal annars í ljós að gera þarf orðalagsbreytingar á fjölda ákvæða til að samræma hana hugtakanotkun samningsins, auk fjölþættra efnislegra breytinga á ákvæðum laga.

Með frumvarpi þessu er brugðist við niðurstöðum samstarfsnefndarinnar hvað varðar hugtakanotkun. Hér er lagt til að hugtakanotkun verði breytt til samræmis við þá nálgun sem samningurinn felur í sér, að það eru ekki fatlanir sem skilgreini einstaklinga. Dæmi um þetta er að í stað orðsins „fatlaðir“ kemur „fatlað fólk“. Þá er lagt til að verði frumvarpið að lögum falli úr gildi lög um aðstoð til fatlaðra, nr. 25/1962, með síðari breytingum. Lögin vörðuðu upphaflega lögbundið einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að selja eldspýtur en á grundvelli þeirra var heimilt að setja merki Styrktarsjóðs lamaðra og fatlaðra á eldspýtustokka í fjáröflunarskyni fyrir sjóðinn. Óþarft er að vista leifar úrelts fyrirkomulags í lögum og því er lagt til að lögin verði felld úr gildi.

Jafnframt er lagt til með frumvarpinu að felld verði brott 3. gr. tilskipunar frá 23. mars 1827, um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum. Öllum þeim sem lesa ákvæðið má ljóst vera að þar er á ferðinni mikil tímaskekkja og ekki í samræmi við ákvæði samningsins um réttindi fatlaðs fólks.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er hluti af þeim lagaúrbótum sem ráðast þarf í til þess að Ísland geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og Alþingi hefur nú þegar ákveðið að gert verði. Ég tel mikilvægt að við náum áföngum hratt og vel til þess að fullgilda megi samninginn sem fyrst og ég leyfi mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.