144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og ég gat um í ræðu minni þá er ráðuneytið að vinna mjög ákveðið að því marki að fullgilda þennan samning. Það þarf að breyta fleiri lögum en þeim sem hér er um að ræða. Eins og ég nefndi áðan þarf væntanlega að leggja fram frumvarp um breytingu á lögræðislögum. Það eru fleiri þættir sem þarf að skoða.

Ég hef sagt að árið 2015 geti orðið mjög mikilvægt ár í því að komast áfram með þetta verkefni, en ég get með engu móti lofað því að það klárist á þessu ári. Ég vil bara ekki veita slík loforð nema ég hafi betri vissu fyrir því. Þessi mál þurfa líka að komast í gegnum þingið. Ég legg áherslu á að þau mál sem mælt er fyrir á þessu missiri nái fram að ganga.

Það er hins vegar í höndum þingheims að forgangsraða þeim málum sem komast hér í gegn. Ég get ekkert annað gert en lagt áherslu á að þetta er liður í þessari fullgildingu. En það er í höndum þingsins að ákveða hvernig málum vindur fram hér.