144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að við séum að breyta hér lögum með fullgildingu í huga. Það þarf að taka til athugunar ákvæði laga á sviði innanríkisráðuneytisins, eins á lagasviði annarra ráðuneyta, og því hefur samstarfsnefndin verið að sinna. Hún hefur tekið þetta allt saman, hvaða lögum þarf að breyta. Í sumum tilvikum eru þetta töluvert flóknar breytingar, þetta eru lög sem hafa gilt lengi o.s.frv. þannig að þetta tekur tíma.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega frumvarp sem er á vettvangi menntamálanefndar, ég mun skoða það eftir þennan fund hvar það er statt og hvort þar sé eitthvað sem við þurfum að athuga varðandi þetta mál. Ég hef litið þannig á það gagnvart innanríkisráðuneytinu að menn séu með heildarmyndina af því sem þarf að gera. En því miður er málið þannig að það tekur tíma og með sanni má segja að þetta hefur tekið langan tíma, ég ætla ekki að draga fjöður yfir það. En þá er ekkert annað að gera en að reyna að halda áfram með verkið og það er það sem við erum að reyna að gera.