144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri engan ágreining um það að við fullgildum samninginn frekar en að við lögleiðum hann. Munurinn er náttúrlega fyrst og fremst sá að menn ætla að nota samninginn sem lagatexta eins og gert var varðandi barnasáttmálann. Lagatextinn kemur fyrst og síðan aðlaga menn lög í framhaldi af því. Sumir hafa haldið því fram að samningurinn sé ekki nógu skýr til þess að hægt sé að nota hann beint sem lagagrundvöll, það þurfi að fullgilda hann, en þetta er nú bara orðanotkun. En það er gríðarlega mikilvægt að við fáum túlkun á einstökum atriðum þessa samnings vegna þess að það sem er að gerast er að einstakir hópar líta til ákvæða í samningnum til að sækja réttindi sín. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá ákvæðin túlkuð og inn í lagaramma sem allra, allra fyrst.

Við gerum okkur öll grein fyrir því sem höfum unnið í málefnum sem varða réttindi fatlaðs fólks að þetta er málaflokkur sem hefur setið á hakanum og er töluvert langt á eftir nú þegar. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til dáða og raunar alla ráðherra vegna þess að þetta er málaflokkur sem snertir öll ráðuneyti meira eða minna. Hér er því miður eingöngu verið að gera orðalagsbreytingar eða fyrst og fremst, sem er út af fyrir sig ágætisbyrjun, en það þarf miklu, miklu meira til og mikinn liðsstyrk til þess að þetta gangi sem allra hraðast og best fyrir sig.