144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki að taka fram að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var gerður árið 2007 og íslenska ríkið undirritaði samninginn þá en hefur ekki fullgilt hann enn þá. Það vekur óneitanlega athygli þar sem meira en 150 ríki heims hafa fullgilt samninginn. Mikill meiri hluti ríkja heims, bæði þróaðra og vanþróaðra, ríkra og fátækra, hafa fullgilt samninginn og þar með skuldbundið sig til þess að fara að ákvæðum hans. Eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra er þetta mjög viðamikið mál og ýmislegt hefur gengið á hér síðustu árin sem kannski hefur tafið málið, þ.e. að fullgilda samninginn. Samningurinn kveður á um mörg mikilvæg atriði sem vitað er um að þurfi sérstaklega að huga að til þess að tryggja fötluðu fólki tækifæri til að taka þátt í samfélaginu með virkum hætti og ráða lífi sínu sjálft, daglegum athöfnum og þeim stærri einnig, svo sem menntun og að stunda atvinnu. Við höfðum séð hvað NPA hefur gert kraftaverk fyrir fólk sem hefur valið þann kost að nýta sér það úrræði, sem er alveg frábært.

Samningurinn er mjög mikilvægur, alþjóðlegur mannréttindasamningur sem bætir mjög stöðu fatlaðs fólks og ver það fyrir alls kyns mismunun sem vitað er um að fatlað fólk um allan heim þarf að þola. Það er auðvitað líka viðfangsefni hér á landi, eins og við höfum fengið að kynnast í fréttum að undanförnu, það hefur verið mikið til umræðu og er okkur til vansa hvernig staðið er að ýmsu í þeim málaflokki. En ég fagna því að þetta mál sé komið fram, þetta er skref í rétta átt og við erum kannski á leiðinni að fullgilda samninginn, sem er mjög gott mál. Ég tek alveg undir það með hæstv. innanríkisráðherra að þetta er stórt mál. En betur má ef duga skal og það er löngu tímabært að samningurinn verði fullgiltur og tryggi fötluðu fólki þann rétt sem mælt er fyrir um í honum. Ég hvet ríkisstjórnina og hæstv. innanríkisráðherra til þess að flýta málinu eins og hægt er.

Síðan vil ég að lokum segja að ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til þess að hafa fatlað fólk með í ráðum við alla ákvörðunartöku í þessum málum, því að eins og stendur í formálsorðum samningsins er fötluðu fólki ætlað að taka þátt í öllum ákvörðunartökum sem varða þeirra mál. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt, að þeir séu ekki bara einhverjir áheyrnarfulltrúar eða fái að sitja úti í horni og hlusta á fundi heldur taki virkan þátt í því að fullgilda þetta og skapa þær aðstæður sem við viljum að það fólk búi við, því að það veit náttúrlega best hvað þarf að gera. Það er bara þannig. En ég fagna frumvarpinu.