144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé nú komið fram og þó svo að það láti lítið yfir sér, því hér er vissulega nánast bara um orðalagsbreytingar í lögum að ræða, þá skiptir það auðvitað máli. Það skiptir máli hvernig við tölum um fólk og það skiptir ekki síður máli hvernig við fjöllum um fólk í opinberum plöggum og þá ekki síst í lagatexta. Mér finnst það kannski sýna sig einna best í því sem er fjallað um í 30. gr. frumvarpsins þar sem kemur fram að tilskipun frá 23. mars árið 1827 er felld á brott, en ákvæðið hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti vakið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist.“

Það að við séum að fella þetta ákvæði út úr lögum núna finnst mér eitt og sér svolítið sanna hversu mikil þörf er á þessu frumvarpi og undirstrika að það skiptir máli hvernig við tölum um fólk. Ákvæðið er svo sannarlega úrelt bæði vegna orðanna sem þar eru notuð en svo auðvitað líka efnislega vegna þess að þó að við eigum eftir að gera ýmislegt til að tryggja fötluðu fólki fulla þátttöku í samfélaginu erum við sem betur fer komin á þann stað að líkamslýti eða útlit fólks er ekki notað til að útiloka það frá þátttöku.

Eins og bent var á, bæði í ræðu hv. þingmanns hér á undan mér, Páls Vals Björnssonar og annarra sem fóru í andsvar við hæstv. ráðherra, þá er maður auðvitað svolítið óþolinmóður og vill gjarnan líka sjá efnislegar breytingar sem eru nauðsynlegar til að við getum fullgilt samninginn. Á heimasíðu innanríkisráðuneytisins er tafla, reyndar dagsett 22. apríl 2013, þar sem má sjá ágætt yfirlit um þá vinnu sem á eftir að fara í. Þar eru listuð upp þau lög sem þarf að breyta til að hægt sé að fullgilda samninginn. Taflan er frá 2013 svo maður veit ekki hvað hefur gerst síðan þá en ef hún er skoðuð sér maður vel að það er ýmis vinna eftir og ég hvet hæstv. ráðherra til að flýta henni sem mest.

Svo vil ég líka segja að lokum að það er gríðarlega mikilvægt að öll þau frumvörp sem eru lögð fram á Alþingi héðan í frá og eiga að fara í gegnum þingið séu frá upphafi í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þannig að ekki þurfi að breyta texta sem við erum annaðhvort að vinna með eða er í nýsamþykktum lögum. Ég vil hreinlega hvetja hæstv. innanríkisráðherra til að koma þessum skilaboðum vel á framfæri við aðra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni til að ný lög séu að minnsta kosti rétt og í samræmi við samninginn, af því að það er nóg að gera við það að breyta gömlum lögum.

En að því sögðu þá er þetta frumvarp, svo langt sem það nær, skref í rétta átt og ég fagna því að við séum að taka þó þetta skref í þá átt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hlakka til þegar næsta frumvarp í þá veru kemur fram.