144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ræðuna og framlagningu þessa frumvarps. Ég get tekið undir með fyrri ræðumönnum eða öðrum alþingismönnum sem hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að fullgildingin á þessum mikilvæga samningi sé ekki lengra komin en þetta er þó skárra en ekkert og eins og kom fram í máli ráðherra þá skiptir orðfæri og orðanotkun svo sannarlega máli. Og það má segja að á síðastliðnum árum höfum við upplifað mjög breytt viðhorf til málefna fatlaðs fólks og réttinda fólks með fötlun. Við gerum okkur kannski betur og betur grein fyrir því að það eru ekki meðfædd eða áorðin einkenni og eiginleikar á fólki sem er stóra vandamálið heldur er það samfélagið sem oft og tíðum er fatlandi. Við þurfum að búa fólki almennileg skilyrði og líta ekki þannig á að einstaklingurinn sjálfur búi við ákveðnar hömlur heldur sé það samfélagsins að skapa samfélag fyrir alla sem gefi öllum tækifæri og rétt til þátttöku og að lifa lífi með eðlilegum hætti.

Ég kem hingað upp meðal annars til að minna á að á síðasta kjörtímabili fluttum við málefni fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Það var mikið framfaraskref en það sem var einstaklega ánægjulegt í því máli var sú samstaða sem náðist í þinginu. Þá lögðu allir þingmenn í þáverandi félagsmálanefnd sitt af mörkum til að vinna málið sem best úr garði og koma því í gegn fyrir áramótin 2011 svo yfirfærslan gæti átt sér stað. Mikil undirbúningsvinna hafði verið unnin en málið kom seint inn í þingið og okkur var ákveðinn vandi á höndum í þessum stóra og mikilvæga málaflokki. Okkur fannst erfitt að flytja málaflokkinn án þess að hafa haft meiri aðkomu að málinu. En við sáum að það hafði verið unnin mjög mikil vinna bæði af hálfu ríkisins og sveitarfélaga og farsælast væri að standa ekki í vegi fyrir því. En við ákváðum að til þess að hafa betri yfirsýn yfir málaflokkinn og betri tök á honum skyldi lögð fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 og gáfum við leiðbeiningar um hvað ætti að koma fram í henni, meðal annars átti að vinna að og ljúka fullgildingu samningsins. Það átti að gerast með frumvarpi. Svo kom framkvæmdaáætlunin fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu. Hún var samþykkt og kveðið var á um að það ætti að koma fram frumvarp um fullgildingu samningsins á vorþingi 2013. Það frumvarp hefur enn ekki verið lagt fram en til að gæta sannmælis tel ég þó rétt að segja að unnin hefur verið heilmikil vinna í þá átt að geta fullgilt samninginn. En þetta er samt sem áður flókið verkefni. Vegna margra greina í samningnum þarf að gera heildarendurskoðun á ákveðnum ákvæðum laga og það verður ekki gert nema það sé mjög ríkur vilji ráðherra að setja þá vinnu í forgang. Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til að vinna í þessu af fullum krafti og setja sér það markmið að leggja frumvarpið fram á haustþingi.

Það sem ég vil ræða að lokum, herra forseti, eru ákveðin vandkvæði með umfjöllun málaflokka í nefndum Alþingis. Nú er það svo að málefni fatlaðs fólks heyra undir velferðarnefnd. Við erum núna að fjalla t.d. um almannatryggingalöggjöfina og höfum fengið inn athugasemdir frá ýmsum umsagnaraðilum, þar á meðal Öryrkjabandalaginu og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þar koma fram áhyggjur af að ákveðin atriði séu ekki í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er auðséð að það er vilji allra að tvær greinar frumvarpsins verði ekki að lögum, þar sé um að ræða endurtekningu frá fyrri lögum og þessar greinar ættu að falla brott úr lögum, þær eru úreltar. Síðan eru önnur ákvæði eins og varðandi réttindaávinnslu eða tíma sem einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum þótt þeir flytjist erlendis í ákveðinn tíma vegna náms og þar er gert ráð fyrir fimm árum og mannréttindaskrifstofa hefur bent á að þetta sé ekki í samræmi við 5. tölulið 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við höfum því óskað eftir því að innanríkisráðuneytið taki afstöðu til þess hvort gagnrýnin sé ekki rétt í umsögnum og við munum þá bregðast við því og lagfæra greinina þannig að hún vinni ekki gegn fullgildingu samningsins.

Þetta frumvarp fer til allsherjar- og menntamálanefndar en hún fjallar að jafnaði ekki um málefni fatlaðs fólks með sama hætti og velferðarnefnd. Ég segi ekki að það kunni að vera algerlega fráleitt að vísa málinu til hennar en það skapast ákveðin vandkvæði vegna þessa. Það er mikilvægt í svona stórum og mikilvægum málaflokki, sem að megninu til er fjallað um í einni nefnd, að hafa yfirsýn. Auðvitað er líka fjallað um aðgengismál í umhverfis- og samgöngunefnd og málefni fatlaðs fólks eru til umfjöllunar í fjölmörgum nefndum eins og bara mál okkar allra. Við sem borgarar í þessu samfélagi föllum undir flestar nefndir þingsins. En það er mikilvægt að það sé yfirsýn og þekking á þessum mikilvægu réttindum á einum stað í þinginu í nefnd sem reglulega fjallar um þennan málaflokk.

Ég vil taka annað dæmi, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Mér skilst að eftirlit með framkvæmd hans heyri undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er eftirlitsaðili þingsins þótt allar þingnefndir hafi eftirlitshlutverk. En í velferðarnefnd eru málefni barna. Þau eru sérstaklega á okkar forræði og við fjöllum mjög reglulega um málefni barna í tengslum við heilbrigðismál, barnaverndarlög, barnalög og í fleiri málaflokkum og þar af leiðandi verður ákveðið rof þegar eftirlit með samningnum um réttindin er síðan í annarri nefnd. Núna hefði ég viljað fá þetta mál inn í velferðarnefnd, mér hefði þótt það heppilegt, eða að það færi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ef sú nefnd á að vera sérstakur eftirlitsaðili með því að samningarnir nái fram að ganga og unnið sé í samræmi við þá.

Ræða mín er fyrst og fremst til þess að lýsa yfir ánægju með að það sé þó verið að stíga eitthvert skref í rétta átt, hvetja ráðherra til þess af fullri festu að vinna að fullgildingu samningsins sem fyrst og lýsa yfir áhyggjum af því að þegar málum er vísað til nefnda verði ákveðið rof í þekkingu og innsýn í málaflokka sem skipta sköpum fyrir réttindi fólks í íslensku samfélagi. Ég óska því eftir að þingskapanefnd, sem mér skilst að hafi ekki komið saman í nokkurn tíma en eigi að fara að kalla saman, fari yfir þetta. Nú erum við búin að fá reynslu á nýju nefndirnar sem eru með öðrum hætti en þær gömlu voru og margt er gott í nýju nefndaskipaninni, en ég óska eftir því að í þingskapanefnd verði farið dálítið nánar ofan í saumana á því hvernig við tryggjum sem besta yfirsýn og þekkingu í hverri nefnd á einstaka málaflokkum.