144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

466. mál
[14:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í sjálfu sér í andsvar við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur heldur taka undir það að stundum þarf að skýra betur hvaða nefndir fjalla um mál. Mér varð til dæmis á að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um mál, sem er almannatryggingamál, og sagði að það væri í allsherjar- og menntamálanefnd, en það upplýstist hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar, að er í velferðarnefnd. En nákvæmlega þar var einmitt verið að gera þær athugasemdir að menn þyrftu að fylgja því betur eftir hvort þau lög samræmdust samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Ég bið hæstv. ráðherra velvirðingar á því og skil vel það svar að hún hafi ekki kannast við það sem ég var að ræða um af því að ég ruglaðist á nefndum.

En þetta kallar auðvitað líka fram, og ég tek undir það með hv. þingmanni að kalla eftir því, að kannski þarf að vera formlegt utanumhald um þetta skjal sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, nefndi áðan, þar sem er yfirlit yfir hverju þarf að breyta og þá sé einhver formlegur aðili innan þingsins sem fylgist með því hvernig það gengur; er það komið í öll frumvörp o.s.frv.? Kannski er það af því að ég veit að þegar frumvörp eru lögð fram, sérstaklega stjórnarfrumvörp, þá eru ákveðnar reglur um það hvað eigi að tékka. Stangast það á við stjórnarskrá? Stangast það á við það ef sveitarfélögin eiga að fá að leggja mat á hvaða áhrif það hefur? Það á að setja upp kynjagleraugun og meta hvort þetta samræmist jafnréttislögum. En því ekki að vera bæði með barnasáttmálann og samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk, að það sé alltaf skoðað með tilliti til þessara atriða hvort lögin stangist á við þessa tvo samninga?