144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framlagningu á þessum frumvörpum og kynningu á þeim. Ég játa hreinskilnislega að ég hef ekki lesið frumvarpið frá blaðsíðu eitt og til enda, þetta eru 50–60 blaðsíður, raunar 70 blaðsíður með því sem sagt er um farþegaflutninga.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það mál sem hefur verið töluvert í umræðu og varðar einkaréttinn. Hann er veittur sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum eftir ákveðnum reglum. Talað er um að það sé gert þar sem ekki er um að ræða leiðir sem geta staðið undir sér. Mig langar að heyra túlkun hæstv. ráðherra á því ákvæði og hvaða skilning hún hefur á því atriði. Það er ljóst ef við tökum til dæmis Suðurnesin, og þetta var töluvert mikið rætt, að ferðirnar geta staðið mjög vel undir sér og kostnaður jafnaður ef leiðin frá höfuðborginni til Keflavíkurflugvallar er inni í pakkanum. En ef það er tekið út fyrir sviga og rekið af einkaaðilum með hagnaðarvon þurfa sveitarfélög eða ríkið hugsanlega að borga eða greiða mikið með flutningum á milli svæða þvert á skaganum, t.d. frá Sandgerði til Grindavíkur o.s.frv.

Mig langar að stytta mér leið og spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta er hugsað í þessum nýju lögum: Munu menn tína út bestu leiðirnar og einkavæða þær, þ.e. veita einkarétt á þeim? Eða er einkarétturinn eingöngu háður því að það séu sveitarfélög, byggðasamlög og landshlutasamtök? Er þá heimilt að taka svona stórar ferðaleiðir inn í þann pakka?

Það er forvitnilegt að heyra um leigubílana og ég held mig við Keflavíkurflugvöll: Skil ég það rétt að núna sé ferðaþjónustuaðilum og hótelum heimilt að vera með ferðir frá flughöfninni, þ.e. einhverjar skutlur sem taka upp farþega og koma þeim á viðkomandi hótel, eða er því vísað á leigubíla eða til almenningssamgangna?