144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

farmflutningar á landi.

503. mál
[15:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég geri mér grein fyrir að nefndin mun auðvitað fjalla mikið um ferðaþjónustuna og bifreiðir undir átta manna og stöðuna gagnvart leigubílum. Ég ætla ekki að blanda mér meira í það.

Hin fyrirspurnin, sem má segja að sé um gömlu áætlunarferðirnar eða réttinn til að flytja farþega frá Keflavíkurflugvelli inn til bæjarins á stærri bílum, snýst kannski fyrst og fremst um afkomu almenningssamgangna. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við reynum að halda úti almenningssamgöngum og getum þá bætt við leiðum. Þarna er leið sem getur augljóslega skilað verulegum tekjum og mun gera það kleift að reka aðra þjónustu á Skaganum, á Reykjanesi eða Suðurnesjunum. Þá er spurningin hvort að með því að leyfa að einkaaðilar fari sérstaklega inn á þessa leið skilji menn eftir kostnaðinn af því að bjóða upp á góðar samgöngur að öðru leyti út á Suðurnesin. Þetta gildir um fleiri staði á landinu. Ef menn geta tínt út bestu bitana á ákveðnum leiðum verður dýrt að reka hinn hlutann sem hugsanlega bitnar á almenningssamgöngum og það stangast á við markmið frumvarpsins, eins og ég skil þau, þarna eru bæði umhverfisleg sjónarmið og byggðaleg, að menn geti haldið uppi sem fjölbreyttustum samgöngum.

Það var þetta sem ég var að velta vöngum yfir upphátt og ég bið hæstv. ráðherra, ef hann getur, að gefa frekari upplýsingar um þennan þátt, en auk þess mun nefndin væntanlega taka þetta til afgreiðslu. Sjálfur hefði maður viljað sjá það þannig að menn gætu nýtt bestu leiðirnar til að fjármagna þær sem eru fáfarnari og tryggt að hægt væri að reka þjónustu á þeim leiðum.