144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[16:41]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hér upp og gera stuttlega grein fyrir fyrirvara mínum við þetta frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga. Hann lýtur, eins og flutningsmaður las hér upp rétt áðan, að því sérstaklega að hér er verið að fella út svokallaðar almennar ívilnanir er fundust í þeim lögum sem samþykkt voru frá Alþingi, árið 2010. Almennar ívilnanir eiga í stuttu máli sagt frekar við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki en hér er aðallega átt við og reyndar einungis átt við stærri fyrirtæki eða stóriðju.

Ég tel brýnt að við setjum ramma um ívilnanir til stóriðju. Ég hef ekkert verið neitt sérstaklega hrifin af stóriðju, ég viðurkenni það alveg, en verksmiðja er ekki sama og verksmiðja og við eigum að horfa á það í víðu samhengi. Meginatriðið er þetta: Mér finnst við byrja á vitlausum enda. Ég tel það vera miklu mikilvægara að festa í lög þennan almenna hluta ívilnananna til þess að mega betur hlúa að mörgum sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum. Það er mín trú að þau yrðu betur til þess fallin að styrkja atvinnurekstur á sjálfbærari máta en við þekkjum með stóriðjur. Þetta er meginmergur málsins í mínum fyrirvara. Það kom fram fyrir nefndinni að fyrir liggur í ráðuneytinu að setja þessar svokölluðu almennu ívilnanir í ákveðið form og gera það þannig að ESA hugnaðist, ef maður getur sagt sem svo, að þær falli undir þann ramma og við á núna með þessu frumvarpi og það er gott og blessað. En við þurfum oft að bíða heillengi eftir góðum hlutum hér í þinginu og ég óttast það að við bíðum of lengi og mér hefði fundist réttara að byrja á hinum endanum, það liggur meira á því.

Svo skulum við auðvitað ræða verkefnin hvert um sig sem falla undir þennan ívilnunarsamning. Þau geta verið margs konar og mismunandi og það er allt annar handleggur og verður að skoða sérstaklega.