144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[16:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem hann hélt hér og fyrir að kynna niðurstöðu meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nú er það svo að á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl 2011 var samþykkt að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað og í kjölfarið skipaði iðnaðarráðherra starfshóp með fulltrúum iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra og fjórum fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og einnig áttu sæti í starfshópnum fulltrúar Rariks og Orkubús Vestfjarða. Starfshópurinn skilaði síðan skýrslu sinni til iðnaðarráðherra í desember 2011. Hæstv. núverandi forseti Alþingis lagði fram frumvarp sem var í takti við niðurstöður þessa starfshóps, bæði á 141. þingi og 142. þingi. Nú leggur hæstv. iðnaðarráðherra fram þetta frumvarp og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar vill ekki fara þá leið sem sátt virtist vera um, þá leið sem starfshópurinn lagði til.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað það er í tillögum starfshópsins sem meiri hluta atvinnuveganefndar leist ekki á og hvers vegna ekki er farin sú leið sem lögð var til í skýrslu starfshópsins.