144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum (jöfnunargjald), frá atvinnuveganefnd.

Annar minni hluti telur brýnt að stuðlað sé að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til notenda í dreifbýli en er ekki sammála þeirri fjármögnunarleið sem mælt er fyrir um í frumvarpinu þar sem lagt er til að innheimt verði sérstakt gjald eða 0,30 kr. á hverja kílóvattstund og 0,10 kr. á hverja skerðanlega kílóvattstund af dreifiveitum. 2. minni hluti telur gagnrýnisvert hverjir eiga að standa undir kostnaðinum við að jafna kostnað við raforkudreifingu samkvæmt frumvarpinu og leggur því til aðra leið til fjármögnunar á verkefninu.

Annar minni hluti telur enn brýnna að niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar verði auknar, samanber lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002. Við umfjöllun um málið í nefndinni komu fram hugmyndir um að sett yrði í forgang að auka niðurgreiðslur vegna húshitunar. Sú tillaga hlaut á endanum ekki meðbyr en 2. minni hluti telur mikilvægt eins og fram hefur komið að áður en byrjað verður að auka jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku verði stuðningur við niðurgreiðslur til húshitunar aukinn.

Annar minni hluti bendir á að fyrir liggur skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar frá árinu 2011 sem var unnin fyrir iðnaðarráðuneytið og hefur verið vakin athygli á hér. Sá starfshópur lagði til að jöfnunargjald yrði lagt á hverja framleidda kílóvattstund sem næmi nauðsynlegum kostnaði til að niðurgreiða á hverjum tíma að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Tillögur hópsins voru þrenns konar. Lagt var til að gerð yrði grundvallarbreyting á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis yrðu niðurgreidd að fullu. Kerfið yrði þá sjálfvirkt þar sem breytingum á verði raforkudreifingar yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þyrfti að liggja að baki. Einnig var lögð til breytt fjármögnun niðurgreiðslna. Í tillögum hópsins fólst, eins og áður er getið, jöfnunargjald sem yrði lagt á hverja framleidda kílóvattstund og næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur væri á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar á íbúðarhúsnæði. Þá voru lagðar til nokkrar aðferðir sem vörðuðu frekari uppbyggingu jarðvarmaveitna og bætta orkunýtni, til að mynda jöfnunargjald sem yrði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem gæti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna. Jafnframt var gerð tillaga um að lengja stofnstyrkjaframlag í allt að 12 ár ef þörf kræfi.

Í skýrslunni kom fram að um 10% landsmanna hefðu ekki aðgang að jarðvarmaveitu og að hitun með rafmagni eða í sumum tilvikum olíu væri margfalt dýrari en hjá þeim sem hefðu jarðvarmaveitu. Þá kom fram að á tímabilinu 2005–2010 hefði bilið aukist jafnt og þétt milli rafhitunar og jarðvarma þrátt fyrir að ekki hefðu verið teknar ákvarðanir um að draga úr jöfnun kostnaðar milli svæða. Ástæðan var sögð vera sú að verðmunur á jarðvarma og rafhitun hefði aukist án þess að fjárhæð niðurgreiðslna hefði fylgt þeirri þróun. Starfshópurinn taldi að ástæðuna mætti einkum rekja til fyrirkomulags niðurgreiðslukerfisins sjálfs þar sem stöðugt þyrfti að endurskoða fjárhæðina í flóknu umhverfi frekar en að pólitískur vilji hefði verið fyrir meiri ójöfnuði. Einnig kom fram það mat starfshópsins að núverandi kerfi mætti telja flókið, ógagnsætt gagnvart neytendum og háð stöðugum uppfærslum sem byggja þyrfti á erfiðu mati á umfangi niðurgreiðslufjárhæða hvert sinn.

Annar minni hluti bendir á að samkvæmt 5. gr. laga um umhverfis- og auðlindaskatta er lagður skattur á raforku og heitt vatn sem nemur tæpum 13 aurum á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2% af smásöluverði á heitu vatni. Þessi skattlagning fellur úr gildi í lok þessa árs. Gert er ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2015 að tekjur ríkisins af skattinum muni nema tæplega 2,2 milljörðum kr. 2. minni hluti leggur til að þessari skattlagningu verði fram haldið og að tekjur af skattinum muni framvegis renna til þess að jafna kostnað við dreifingu raforku og niðurgreiða húshitunarkostnað. Skatturinn verði hins vegar lækkaður í þá tölu sem þarf til að standa undir þessari jöfnun, ásamt framlagi ríkissjóðs, þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu á alla notendur. Fram kom við umfjöllun um málið að til að jafna að fullu á þessu ári kostnað við dreifingu raforku og greiða niður kostnað við húshitun þurfi ríkissjóður um 410 millj. kr. til viðbótar við það fé sem nú er til ráðstöfunar. 2. minni hluti leggur til að ríkissjóður veiti þegar á þessu ári viðbótarframlag til þess og leggi út fyrir því og fái það til baka að fullu á næsta ári. 2. minni hluti leggur til að fjárhæð skattsins helmingist frá því sem nú er en hins vegar verði hann tímabundið hærri á árinu 2016 til að greiða ríkissjóði til baka framlagið á árinu 2015.

Að lokum telur 2. minni hluti rétt að geta þess að verðskrá dreifingar Rariks hækkaði um áramót um 28 aura/kwst. sem svarar til um 3% meðalhækkunar á verðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hækkuðu reikningar fyrir almenna notkun minna vegna lækkunar á virðisaukaskatti eða að jafnaði um 1,8% en fyrir heimili með rafhitun hækkaði virðisaukaskattur og því hækkuðu reikningar meira eða að jafnaði um 9,3%. Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða hækkaði verðskrá fyrir dreifingu raforku í dreifbýli um 10%. Nefndin fékk þær upplýsingar að helsta skýring þessara hækkana væri sú að ekki væri gert ráð fyrir því að framlag kæmi til á árinu 2015 þar sem frumvarpið hefði ekki orðið að lögum.

Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðanna „í samræmi við innheimt jöfnunargjald skv. 3. gr. a“ í 1. gr. komi: í samræmi við innheimtan raforkuskatt.

2. 2. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn.

Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Raforkuskattur vegna dreifingar raforku.

Til að standa straum af jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda samkvæmt lögum þessum skal greiða í ríkissjóð sérstakan skatt af seldri raforku.

Fjárhæð skatts samkvæmt 1. mgr. skal vera 0,065 á hverja kílóvattstund af seldri raforku.

Um álagningu, uppgjör og innheimtu fer samkvæmt lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009.

3. 3. gr. falli brott.

4. 4. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal fjárhæð skatts skv. 1. mgr. 2. gr. á árinu 2016 vera 0,091 á hverja kílóvattstund af seldri raforku.

Undir nefndarálit 2. minni hluta rita Kristján L. Möller og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Mikið hefur verið rætt um jöfnun á dreifingu raforku og jöfnun á húshitunarkostnaði og hefði maður svo gjarnan viljað sjá að það væri komið í gegn. Sá starfshópur sem lagði til að lagðar yrðu 0,30 kr. á hverja framleidda kílóvattstund, þær tillögur voru mjög góðar og mjög undarlegt að núverandi meiri hluti skuli ekki taka þær upp. En mér finnst alveg ótækt núna að við förum út í þessa jöfnun, sem er auðvitað löngu orðin tímabær, með þeim hætti að skilja eftir stórnotendur algjörlega, að þeir séu ekki þátttakendur í þeirri samfélagsábyrgð sem ég tel að eigi að vera, að jöfnuður sé á slíkri grunnþörf sem allir landsmenn þurfa á að halda, raforku og upphitun á húsum sínum, að hann sé undanskilinn. Það liggur auðvitað beint við að þeir komi þá til með að taka þátt þegar þessum sköttum er aflétt af þeim í lok þessa árs, að haldið verði áfram þeirri skattlagningu, en nú nýtist hún til jöfnunar á dreifingu raforku og til húshitunar öllum landsmönnum til góða.

Eins og þetta lítur út núna, frumvarpið og tillögur meiri hluta atvinnuveganefndar, munu mörg byggðarlög sem búa við fjarvarmaveitu koma mjög illa út úr þessari innbyrðis jöfnun og taka á sig miklu meiri hækkanir. Ég get nefnt Ólafsvík, Vestmannaeyjar og fleiri staði þar sem fjarvarmaveitur eru og menn kynda upp með raforku fyrst og fremst. Ég ákalla því þá landsbyggðarþingmenn sem hafa látið hag landsbyggðarinnar sig varða og eru í stjórnarliðinu, að skoða hvað þarna er á ferðinni og hvort ekki er hægt að skoða þær tillögur sem 2. minni hluti leggur fram um að stóriðjan komi inn í þetta samfélagslega verkefni og þannig gætum við slegið tvær flugur í einu höggi og gengið hraðar fram við að jafna líka húshitunarkostnað, ekki bara dreifingu raforku.