144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:37]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið hingað til afgreiðslu þá harma ég að það skyldi ekki hafa klárast fyrir áramót því þá hefði rafmagnsverðið lækkað 1. janúar. En við skulum ekki velta okkur upp úr því af hverju það hafðist ekki í gegn, en það var tillitssemi við stjórnarandstöðuna, við vorum að reyna að koma til móts við hana en því miður gekk það ekki.

Ég vil benda á tilefni og nauðsyn þessarar lagasetningar. Í lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, er kveðið á um að greiða skuli niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli, síðan umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. Kostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í dreifbýli en í þéttbýli og eru dreifbýlisgjaldskrár veitna því talsvert hærri en gjaldskrár sem gilda fyrir dreifingu raforku í þéttbýli. Að óbreyttu liggur fyrir að hækka þurfi frekar taxta í dreifbýli á næstunni þar sem færri og færri standa undir kostnaðinum við það kerfi. Á meðan fjölgar notendum í þéttbýli og þar með eykst hagkvæmni þess kerfis.

Á það hefur verið bent að háir taxtar á dreifikostnaði í dreifbýli stuðli í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðalegum áhrifum. Á vettvangi ráðuneytis, Orkustofnunar og í samráði við Samorku hefur að undanförnu verið leitað leiða til að bregðast við framangreindu vandamáli og tryggja betur en nú er raunverulega jöfnun dreifikostnaðar raforku til almennra notenda. Niðurstaða þeirrar könnunar er hér í frumvarpi þessu, en í því er lagt til að tekið verði upp sérstakt jöfnunargjald á raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna í áföngum til að standa undir fullum jöfnuði kostnaðar við dreifingu raforku.

Hver er niðurstaðan? Orkumagn sem lagt er til grundvallar er niðurstaða ársins 2014. Miðað við töflu frá Orkustofnun þá var húshitunarkostnaður í dreifbýli 31. desember 2014 224.689 kr. en í dýrasta þéttbýli 208.431 kr. En sökum þess að málið gekk ekki í gegn fyrir áramótin, en gerum ráð fyrir að það gangi í gegn núna, verður húshitunarkostnaður í dreifbýli 1. apríl 2015 211.336 kr. á meðan hann verður í dýrasta þéttbýli 210.864 kr. Það munar um innan við þúsund kr. í þessu dæmi.

Í sama dæmi er gert ráð fyrir því að 1. apríl 2016 verði kostnaður við húshitun í dreifbýli kominn niður í 207.211 kr. og í dýrasta þéttbýli 207.549 kr. Þetta verður nánast á pari. Í þessu skrefi jöfnum við nánast húshitun 1. apríl 2015. Ég spyr bara: Er það ekki ágætisskref? Auðvitað viljum við klára dæmið og jafna þetta algerlega. Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar segir:

„Þá vísar meiri hlutinn til þess sem fram hefur komið hjá ríkisstjórninni að lögð verði fram tillaga til þingsályktunar til að ná fram afstöðu þingsins til lengri tíma stefnumótunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu raforku til húshitunar frá og með árinu 2016.“

Ég held að það sé fullur vilji hjá öllum til þessa og ekkert síður hjá þingmönnum þeirra flokka sem nú sitja í meiri hluta en öðrum þingmönnum og meira að segja hjá ráðherrunum sjálfum þannig að ég get ekki annað en fagnað þessu skrefi, en við erum ekki hætt. Við ætlum okkur að jafna kostnaðinn algerlega og ég vona bara að fólk verði sammála og verði samstiga í því.