144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:54]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir spurninguna. Við erum alveg sammála um að þetta er stórt samfélagslegt verkefni, að jafna raforkuna, það er enginn að deila um það. Við deilum um hvernig við eigum að gera það og hvað við ætlum að gera það á löngum tíma. Fram kom hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur áðan að hún treysti því ekki í fjárlögum að peningar kæmu í þetta verkefni. Ég get alveg tekið undir það. Við vitum öll sem hér stöndum að það eru mörg brýn verkefni sem verið er að takast á um í fjárlögum, þannig að það eru ekki minni samfélagsleg verkefni sem við tökumst á um og forgangsröðum þar. En þegar kakan er ekki stærri til skiptanna þá verður eitthvað afgangs. En ef við erum nógu samtaka og samstiga þá forgangsröðum við rétt eða værum alla vega sammála um forgangsröðun.

Áhrif á vísitöluna, ég skal bara viðurkenna það að ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var borið saman, hvort þær tvær leiðir voru eitthvað bornar saman með áhrif á vísitöluna í huga. Ég viðurkenni það hreinlega að ég man það ekki nákvæmlega, en alla vega var þetta niðurstaðan.