144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

kosningar til Alþingis.

57. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég held að þetta sé í þriðja skipti sem ég mæli fyrir þessu máli en hins vegar í fimmta skipti sem það liggur fyrir Alþingi. Með frumvarpinu er lagt til að persónukjör verði fært í lög um kosningar til Alþingis. Ég er sjálf ekki voðalega hrifin af orðinu persónukjör en kann ekki annað betra. Það þýðir að kjósendum verður kleift í kjörklefanum að merkja við nöfn frambjóðenda, ekki einungis við lista heldur einnig við nöfn frambjóðenda. Það er hægt að hafa margan háttinn á því og ég mun greina nánar frá því í framsögu minni.

Það yrði að mínu mati mikil lýðræðisbót ef frumvarpið næði fram að ganga, og af hverju væri það? Jú, vegna þess að það veitir kjósandanum meiri völd í kjörklefanum. Kjósendur geta þá haft meiri áhrif á það hver eða hverjir veljast til þeirra starfa en þeir geta nú. Eins og er er hægt að breyta uppröðun flokkanna eitthvað en áhrif kjósandans í kjörklefanum eru mjög lítil. Þau eru miklu minni en almennt gerist í löndunum í kringum okkur, ef frá eru taldar kosningar til þings í Noregi þar sem sama kerfi er í gildi og hér. Þar er þó persónukjör í sveitarstjórnum þar sem kjósendur hafa meiri áhrif en þeir hafa í kosningum til Stórþingsins.

Sumir gera lítinn greinarmun á prófkjöri og persónukjöri og segja að það eina sem persónukjörið geri sé að framlengja prófkjör fram á kjördag. Því er ég alveg ósammála og ég tel að það séu a.m.k. tvö veigamikil atriði sem geri það að verkum að ekki sé hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu.

Í fyrsta lagi tel ég persónukjör vera réttindi sem eigi að tryggja kjósanda í lýðræðisríki. Þau réttindi eiga að vera lögbundin, við eigum að binda í lög að kjósendur geti í kjörklefanum haft meiri áhrif en þeir hafa í dag. Ef við föllumst á það, við getum tekið það dæmi að eitthvað sé líkt með prófkjöri og persónukjöri, er alveg ljóst að stjórnmálaflokkum er það í sjálfsvald sett hvort þeir halda prófkjör eða ekki og jafnvel þótt það sé skráð í reglur stjórnmálaflokka að halda skuli prófkjör liggur í augum uppi að mjög auðvelt er að breyta því. Einhverjir flokksmenn koma saman og ákveða að nú skuli ekki vera prófkjör eða að prófkjör skuli vera á annan hátt en það var síðast. Þeir sem eru ekki í flokknum, þ.e. óflokksbundnir kjósendur, óflokksbundið fólk, óflokksbundnir íbúar Íslands, sem eru reyndar meiri hluti kjósenda, hefðu ekkert um það að segja ef prófkjörin yrðu afnumin eða þeim yrði breytt.

Svo má bæta við þetta að eins og prófkjörin eru almennt úr garði gerð eru það einungis þeir sem eru skráðir í flokk eða lýsa yfir stuðningi við tiltekinn flokk sem hafa rétt á að taka þátt í þeim. Það er því alveg ljóst að flokksbundnir hafa þar mikil lýðræðisleg réttindi, ef svo má segja, fram yfir þá sem kjósa að vera ekki flokksbundnir. Þá getur fólk sagt: Það er um að gera fyrir alla að ganga í flokk. Það segja þeir auðvitað sem vilja ráða stjórnmálaflokkunum en ég tel að það sé ekki svo auðvelt, enda yrði það ávallt þannig að þeir flokksbundnu mundu hafa talsvert fram yfir hina óflokksbundnu vegna þess að þeir flokksbundnu ákvæðu listana sem eru bornir fram. Þeir hefðu það fram yfir óflokksbundna.

Ég tel að áhugi sé á því hér á landi að taka upp persónukjör í ríkara mæli en nú er. Vil ég í því sambandi vísa til atkvæðagreiðslunnar 20. nóvember 2012 þar sem einmitt var spurt hvort fólk vildi auka persónukjör og yfir 60% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni svöruðu því játandi. Ég held því að alveg ljóst sé að mikill áhugi er á því hjá venjulegu fólki. Ég er hins vegar alveg klár á því að fólk sem er bundið í stjórnmálaflokk, og kannski líka fólkið í þessum sal, hefur ekki mikinn áhuga á því, enda er þetta ekki hugsað fyrir okkur hér heldur fyrir hinn almenna kjósanda.

Það er vissulega hægt að hafa margar aðferðir við persónukjör. Í Finnlandi er það þannig að kjósandinn setur einn kross við nafn og um leið gefur hann flokki frambjóðandans atkvæði sitt. Í Svíþjóð hefur kjósandinn ekki jafn mikil áhrif en hann hefur þó nokkur. Þar er listi sem raðað er á fyrir fram af flokknum en kjósandi getur ákveðið að merkja einungis við eitt nafn. Ef það nafn fær sem nemur 8% af atkvæðum þess flokks sem merkt er við kemst sá frambjóðandi að og hoppar fram yfir alla aðra. Síðan er þetta með ýmsum hætti. Í Danmörku og Þýskalandi er þetta flókið kerfi en þar er persónukjör, kjósandi getur haft tiltölulega mikil áhrif og eins er það í Hollandi. Síðan er mjög ólíkt kosningakerfi til dæmis í Bretlandi. Þar eru einmenningskjördæmi og þar virkar þetta öðruvísi og ekki alveg hægt að gera samanburð þar á. Persónukjör er þó hvergi jafn sterkt og á Írlandi þar sem fólk getur kosið á milli flokka og kýs einungis persónur.

Það fyrirkomulag sem lagt er fram í þessu frumvarp gengur lengra en almennt tíðkast í löndunum í kringum okkur á þann veg að kjósandi getur greitt frambjóðendum á fleiri en einum lista atkvæði sitt. Samkvæmt frumvarpinu hefur kjósandinn um þrjá kosti að velja. Hann getur merkt við listabókstaf, enda fellir hann sig við þá röð sem er á listanum, og þá er listinn ákveðinn af flokknum þannig að flokksfólkið hefur það fram yfir hina sem ekki eru í flokknum að þeir ráða honum. Það er sem sagt hægt að merkja við listann, rétt eins og við gerum í dag. Kjósandi getur líka merkt við einn frambjóðanda og þá nýtist atkvæðið þeim lista sem frambjóðandinn sem atkvæðið hlýtur á sæti á, nýtist listanum og frambjóðandinn flyst upp, eins og maður gæti sagt, í efsta sæti á þeim lista.

Í þriðja lagi getur kjósandinn skipt atkvæðinu sínu á svo marga frambjóðendur sem fjöldi þingmanna er í viðkomandi kjördæmi og hann getur kosið tvo af einum lista. Ef það eru fimm þingmenn getur hann kosið tvo með því að merkja við tvö nöfn á einum lista og eitt á þremur og hefur þá skipt atkvæðinu sínu í fimm hluta.

Í greinargerð með frumvarpinu er því lýst hvernig atkvæði reiknast listum og frambjóðendum en í grófum dráttum er það þannig að listinn fær hlutfall úr atkvæði sem fer eftir því við hversu marga er merkt á honum. Ef það eru fimm sæti í kjördæmi og á einum lista eru merkt við tvö nöfn fá þeir menn sem þar er merkt við atkvæðin og síðan fær listinn, sem þarf svo að nota til að reikna út jöfnunaratkvæði og þar fram eftir götunum, 2/5. Þetta er nokkuð flókið og ég ætla ekki að fara út í útskýringar á því en bendi á greinargerðina með frumvarpinu þar sem það er útskýrt vel. Það sem skiptir máli í þessu er að kosningin er einföld. Það er ekki flókið að kjósa, það þarf einungis merkja við og ekkert flókið við það. Það er dálítið flókið að útskýra hvernig listanum reiknast þetta til en það má svo sem segja um önnur kosningakerfi, t.d. d'Hondt-regluna sem gildir í kosningakerfi okkar. Það er ekki auðvelt að útskýra hana en það er auðvelt að kjósa og það er það sem skiptir máli. Það skiptir máli að kjósandinn sé ekki í vandræðum þegar hann kemur inn í kjörklefann og viti nákvæmlega hvað hann á að gera og síðan sé það reiknað út af sérfræðingum hvernig það leggst allt saman niður.

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja stuttlega að áhrifum persónukjörs á fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Mig langar að tala um áhrif persónukjörs á endurnýjun kjörinna fulltrúa, svona eins og að endurnýja í happdrættinu, endurnýja kjörna fulltrúa, þ.e. veltan á kjörnum fulltrúum. Síðan vil ég koma inn á það sem oft er sagt um persónukjör, að það séu helst þeir sem eru frægir eða þekktir sem komast að. Loks vil ég tala um áhrif þess á kynjahlutfall kjörinna fulltrúa. Þetta eru þau atriði sem oft eru nefnd sem rök gegn því að taka upp persónukjör.

Það liggur í augum uppi að það verður flóknara að halda utan um fjármál flokka ef persónukjör er innleitt heldur en er ef stjórnmálaflokkar stilla framboðslista upp á flokksskrifstofum. Mér þykir þó fráleitt að halda að erfiðara sé að hafa skikk í þeim efnum við persónukjör en við prófkjör, eins og tíðkast hér á landi. Eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna þarf að vera í lagi. Það er alveg sama hvaða kerfi er í gangi og það á við hvort sem persónukjör er leyft eða ekki. Ég tel að þetta eftirlit þurfi að vera í lagi. Misnotkun er ekki leyfð og ég held að það sé ekki meiri hætta á henni í persónukjöri en prófkjöri. Þetta eru reglur sem þurfa að vera í lagi. Stjórnmálaflokkarnir þurfa að halda utan um þær og ekki ætti að þurfa að segja þeim sem bjóða sig fram til opinberra starfa að þeir þurfi að hafa það í lagi, misfara ekki með fjármuni og fara eftir þeim reglum sem settar eru um það.

Það hefur verið sagt að þeir frægu og þekktu nái frekar kjöri. Það er ekki hægt að segja: Nei, það er tóm vitleysa, það er ekki þannig. Auðvitað er það svo að fólk kýs frekar einhvern sem það þekkir til en einhvern sem það þekkir ekki neitt. Ég held að það liggi í hlutarins eðli. Svo getur fólk líka verið frægt að endemum og þá er það ágætt og hægt að láta vera að kjósa slíkt fólk. Ég vil ekki gera mikið úr þessu máli. Þetta er eitt af því sem aldrei verður hægt að breyta. Ef við þurfum að velja á milli er alltaf líklegra að við veljum þann sem við þekkjum aðeins betur. Þannig er lífið, við komumst ekki hjá því í neinu kosningakerfi að fólk kjósi frekar þann sem það þekkir, nema það sé ævintýrafólk og þá gerir það það sem því þykir réttast.

Því hefur líka verið haldið fram að endurnýjun verði minni og auðveldara sé fyrir þá sem fyrir eru að ná kjöri ef um persónukjör er að ræða heldur en ef flokkar stilla upp. Það er til alveg fullt af rannsóknum um þetta og þær sýna allar að sitjandi þingmenn og sveitarstjórnarmenn, og vitna ég í erlendar rannsóknir, hafa meiri möguleika á að ná kjöri en nýlegir, hvert sem kosningakerfið er. Þó hefur sýnt sig að meiri endurnýjun á sér stað þegar listar er bornir fram, þ.e. í hlutfallskosningum, en í einmenningskjördæmum. Það hefur líka verið sýnt fram á að endurnýjun er meiri í stærri kjördæmum en minni. Ég hef ekki rekist á neinar rannsóknir sem sýna að persónukjör hafi sérstaklega neikvæð áhrif í þeim efnum. Það virðist vera sem eina leiðin til að tryggja endurnýjun sé að setja hámark á þann tíma sem fólk má gegna stöðum eða embættum sem kosið er til. Persónukjör á ekki að hafa nein áhrif á það.

Loks er það kynjahlutfallið. Því er haldið fram að persónukjör hafi gjarnan slæm áhrif á kynjahlutfallið í því tilfelli sem við tölum nú um, af því að verið er að tala um kosningar til Alþingis og kynjahlutföll á Alþingi og hlut kvenna á þjóðþingum eða í sveitarstjórnum sem kjörið er til. Það eru engar rannsóknir til sem sýna að svo sé en í vangaveltum um þetta er oft bent á að konur eigi frekar á brattann að sækja í persónukjöri en þegar flokkar stilla upp. Sumir stjórnmálaflokkar hér á landi hafa lagt mikla áherslu á jafnt kynjahlutfall, hafa sett sér reglur þar um og hafa náð góðum árangri. Þá segja menn: Við megum ekki spilla þeim árangri. Ég tel þó að nauðsynlegt sé í þeim efnum sem öðrum að halda sig við staðreyndir og staðreyndirnar eru þær að engar rannsóknir liggja fyrir um að persónukjör hafi áhrif á hlut kvenna í kosningu til þings eða sveitarstjórna.

Í þessari umræðu hefur einnig verið bent á að hlutur kvenna á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndum sé mikill í samanburði við aðrar þjóðir og í þessum löndum er persónukjör við lýði. Áhrif kjósenda á það hverjir ná kjöri eru mjög mikil í Finnlandi sem og í Svíþjóð og Danmörku, þótt minni séu en í Finnlandi, og þar er hlutfall kvenna á kjörnum samkomum hátt.

Á þjóðþingi Írlands, þar sem persónukjör vegur mjög þungt, er hlutur kvenna vissulega lítill en talið er að það megi rekja til annarra þátta í írsku þjóðfélagi en kosningafyrirkomulagsins. Kjör Mary Robinson sem forseta Írlands hefur einmitt verið notað sem kennslubókardæmi um það hvernig atkvæði nýtast í írska kosningakerfinu þar sem vald kjósandans í kjörklefanum er mjög mikið. Þar náði hún kjöri beinlínis vegna þess hvernig kosningakerfið er og þrátt fyrir að vera kona, ef ég má taka þannig til orða.

Ég vil í því sambandi nefna að í kosningunum til stjórnlagaþings hér árið 2010 var sagt að kjósa ætti 25–32 fulltrúa til að hægt væri að gæta jafnræðis í kynjahlutföllum. Kosningin féll þannig að ekki þurfti að breyta neinu. 25 voru kjörnir og það þurfti ekkert að færa til vegna þess að kjósendur sáu um það sjálfir að hafa kynjahlutföllin rétt. Ég held reyndar að við séum þangað komin að fólki sé alveg treystandi til þess að þegar það kýs jafni það kynjahlutföllin sjálft. Auðvitað er það miklu betra en þurfa að fara eftir einhverjum kvótum.

Ég ætla ekki að spá fyrir um það hvernig kjósendur mundu nýta sér þann möguleika að kjósa fólk af ólíkum framboðslistum. Stjórnarflokkar standa fyrir ákveðna lífssýn og frambjóðendur þeirra eru, eða ættu alla vega að vera það, merkisberar þeirrar lífssýnar, en við þurfum að átta okkur á því að persónukjör er ekki fyrir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka. Tillagan er lögð fram vegna þess að kjósendur hafa sýnt að þeir vilja gjarnan hafa meiri áhrif á það hvaða fólk tekur sæti á hinum kjörnu samkundum en þeir hafa í dag. Ég held, þótt það sé kannski ekki virðulegt að orða það þannig, að við séum ákaflega aftarlega á merinni í þeim efnum. Ég man eftir því að á síðasta kjörtímabili voru gerðar tilraunir til að koma þessum málum eitthvað áfram en það gekk ekki mjög vel. Einhvern tíma hafði því hálfpartinn verið heitið að leggja ætti fram frumvarp um meira persónukjör í sveitarstjórnarkosningum. Ég held að ég fari örugglega rétt með það að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi verið búið vinna þar ákveðið verk og væri áhugavert ef innanríkisráðherrann dustaði rykið af því.

Ég ætla ekki að hafa þessa tölu mikið lengri hér og legg til að málið gangi til 2. umr. og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vonast sannast að segja að það fái umræðu þar og að við náum því aftur hingað inn í þingsal, því að það hefur ekki tekist fyrr.