144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

kosningar til Alþingis.

57. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi nota tækifærið og þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir framsögu hennar og fyrir frumkvæði hennar að málinu sem er nú flutt í þriðja sinn, hygg ég. Sjálfur er ég meðflutningsmaður að málinu og engin launung á því að ég styð það heils hugar og held að það sé fyllilega tímabært að við lögfestum ákvæði um persónukjör í þinginu, ekki síst vegna þess að við ákváðum á Alþingi að leggja nokkur atriði í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að við séum skuldbundin til þess að fylgja þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu eftir og framkvæma það sem þar var spurt um og skýr afstaða kom fram í atkvæðagreiðslunni um. Eitt af því var sannarlega persónukjörið.

Fulltrúalýðræðið er hugmynd um það að við eigum okkur fulltrúa sem fari með umboð okkar í ákvarðanatökum, t.d. í stofnun eins og þessari, þjóðþinginu. Listakosning, það að fólk kjósi flokka en ekki fulltrúa beint, dregur auðvitað úr þeirri hugsun um að fulltrúi þinn fari með þitt umboð beint og milliliðalaust á þeirri samkomu sem tekur ákvörðun. Allt sem við getum gert til að auka þetta beina samband á milli kjósandans og þess sem með umboðið fer held ég að horfi í aðalatriðum til framfara. Þess vegna sé það mikilvægt að auka rétt kjósandans til að hafa áhrif á það ekki bara hvaða flokkar veljist á þing eða til sveitarstjórna heldur hvaða fulltrúar þeirra flokka setjast þar inn sem fulltrúar kjósandans. Við vitum það sem fylgjumst með þjóðmálum að það skiptir ekki bara máli hvaða flokkar eru valdir heldur skiptir verulegu máli hvaða fulltrúar veljast fyrir hvern flokk. Einstaklingarnir geta haft afgerandi áhrif á stefnumörkun flokkanna, á ákvarðanir flokkanna í stórum málum og á þá forustu sem veitt er í viðkomandi samkomu hvort sem það er þing, sveitarstjórn eða annað. Þess vegna er það sjálfsögð krafa að kjósandinn geti haft sem mest áhrif á þann þátt.

Nú kann að vera að þessi tillaga sé róttækari en svo að fyrir henni sé meirihlutavilji í þinginu því hún gerir auðvitað ráð fyrir því að hægt sé að hafa áhrif á það hvaða einstaklingar veljist fyrir fleiri en einn flokk. Ég sjálfur hef sannfæringu fyrir því að það sé góð skipan, hún sé eftirsóknarverð og er þess vegna meðflutningsmaður að málinu. En ef það er ekki meirihlutavilji til að taka svo stórt skref hér í þinginu þá vildi ég nota þetta tækifæri og eggja menn til þess að skoða þá a.m.k. af mikilli alvöru að taka hitt skrefið sem er í því máli sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir rakti hér í framsögu sinni, sem er að kjósendur viðkomandi flokks geti haft áhrif á það hvaða fulltrúar veljast fyrir þann flokk, jafnvel þótt menn væru ekki tilbúnir til að taka skrefið alla leið í að kjósandinn geti haft áhrif á það hvaða einstaklingar veljast fyrir fleiri en einn flokk. Það væri að minnsta kosti skref á leiðinni og það er rétt sem fram kom hjá þingmanninum að við erum orðin býsna aftarlega á merinni í þessum efnum. Menn hafa verið að reyna fyrir sér um þetta um langt skeið í nágrannalöndum okkar og áhrif kjósenda á það hvaða fulltrúar veljast eru umtalsvert meiri í næstu nágrannalöndum okkar, hvort sem við lítum til Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar eða Noregs, að maður tali auðvitað ekki um til Írlands. Þess vegna kalla ég eftir því að menn ræði það í nefndinni hvort ekki geti tekist víðtæk samstaða um að taka áfanga í átt að auknu persónukjöri með því a.m.k. að kjósendur geti kosið einstaklinga innan þess flokks sem þeir velja í kosningum.