144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

fjölmiðlar.

108. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, um textun myndefnis. Fyrsti flutningsmaður málsins er Svandís Svavarsdóttir, og aðrir flutningsmenn sú sem hér stendur og hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Oddný G. Harðardóttir. 1. gr. hljóðar svo:

„Við 30. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Myndefni sem fjölmiðlaveitur miðla skal ávallt fylgja texti á íslensku sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er.“

Frumvarpið var flutt á 143. löggjafarþingi en komst ekki til nefndar eða til frekari umræðu á þinginu enda var langt liðið á starfstíma þingsins þegar það kom fram í marslok. Breytingin sem hér er verið að ræða um á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, felst í því að fjölmiðlaveitum sem senda út sjónvarpsefni verður skylt að texta það án tillits til þess hvort efnið er á íslensku eða erlendu máli. Breytingin er gerð í því skyni að gera sjónvarpsáhorfendum, sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir að því marki að þeim gagnast ekki talmál í sjónvarpi, kleift að nota og njóta sjónvarpsefnis á íslensku.

Samkvæmt 29. gr. laga um fjölmiðla er fjölmiðlaveitum einungis skylt að texta erlent efni sem þær senda út. Í 30. gr. laganna eru fjölmiðlaveitur hins vegar hvattar til að, með leyfi forseta, „leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun“ með táknmáli, textun og hljóðlýsingu en engin skylda er lögð á fjölmiðlaveiturnar hvað þetta varðar. Er þetta í samræmi við ákvæði 7. gr. III. kafla í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 13/2010 síðan í mars þar sem segir að aðildarríki Evrópusambandsins skuli „hvetja veitendur fjölmiðlaþjónustu sem heyra undir lögsögu þeirra til að sjá til þess að þjónusta þeirra verði smátt og smátt gerð aðgengileg sjón- eða heyrnarskertu fólki.“ Ekki er kunnugt um slíka hvatningu af hálfu íslenskra stjórnvalda aðra en þá sem er að finna í 2. mgr. 6. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, en fjölmiðlanefnd hefur vissulega gert athugasemdir þegar erlent efni hefur verið sent út án íslensks tals eða texta.

Í athugasemdum við 30. gr. frumvarps til laga um fjölmiðla sem lagt var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi árið 2010–2011 og varð að lögum nr. 38/2011 er vakin athygli á því að ákvæðið skyldi ekki veitendur fjölmiðlaþjónustu til að texta ljósvakaefni eða gera það aðgengilegt fyrir fatlað fólk með öðrum hætti. Engin viðurlög liggja við því að senda út dagskrárefni án þess að gera ráðstafanir til að gera það aðgengilegt fyrir heyrnarskerta eða fólk með annars konar fötlun.

Í kafla 4.3.1 í athugasemdum við áðurnefnt frumvarp til fjölmiðlalaga er leitast við að skýra uppruna og þýðingu 30. gr. frumvarps sem á rætur í c-lið 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 65 11. desember 2007. Ákvæðið um að aðildarríki ESB og EES skuli hvetja fjölmiðlaþjónustuveitendur í lögsögu þeirra til að gera útsent efni aðgengilegt sjón- og heyrnarskertum ber, að mati höfunda greinargerðarinnar, að skilja það svo að umrædd grein skyldi aðildarríkin til sjálfseftirlits og eigi því aðildarríkin að setja eigin reglur um þau efni sem greinin vísar til að því marki sem heimild er til í réttarkerfi þeirra.

Ríkisútvarpið ohf., sem er fjölmiðill í almannaþágu og almannaeigu, hefur sett sér málstefnu eins og áskilið er í íslenskri málstefnu, Íslenska til alls. Hún var samþykkt á Alþingi með þingsályktun 12. mars 2009 á 136. löggjafarþingi og þar segir í 6. gr. sem fjallar um táknmál og textun: „Tekið skal mið af þörfum heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli með því að bjóða upp á táknmálsþýðingar og textun innlends sjónvarpsefnis eftir því sem kostur er.“ Þetta er í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem áskilur að heyrnarskertum skuli veittur aðgangur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpi með textaefni og útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma.

Ríkisútvarpið textar alla sjónvarpsþætti á íslensku sem unnir eru fyrir fram og einnig fréttatíma sjónvarps. Sjónvarpsþættir sem sendir eru út beint, svo sem Kastljós og vikulegir umræðuþættir um þjóðmál, eru ekki textaðir. Árið 2012 jókst textun á síðu 888 í textavarpi RÚV úr 303 klukkustundum í 408 eða um 35%. Aðrir ljósvakamiðlar texta aðeins erlent efni og hefur því heyrnarskert fólk takmarkað gagn af útsendingum þeirra á íslensku. Aðrir ljósvakamiðlar en RÚV hafa ekki sett sér málstefnu og texta ekki útsendingar sjónvarpsefnis á íslensku. Ljóst er því að sú brýning um textun sem er í fjölmiðlalögum hefur einungis borið takmarkaðan árangur.

Textun sjónvarpsefnis á móðurmáli þeirra sem útsendingin er fyrst og fremst ætluð gegnir því meginhlutverki að gera heyrnarlausum og heyrnarskertum einstaklingum á viðkomandi málsvæði kleift að njóta þess efnis sem sent er út. Einnig kemur textun sjónvarpsefnis á íslensku að góðum notum fyrir erlent fólk sem ekki hefur full tök á íslensku talmáli en kýs að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og því er áríðandi að sem flestir geti notið þess efnis sem þeir flytja.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um það hversu margir Íslendingar eru heyrnarskertir en sé miðað við erlendar rannsóknir má reikna með að að minnsta kosti 10–15% landsmanna búi við heyrnarskerðingu í einhverjum mæli. Heyrnarskerðingu getur fólk hlotið hvenær sem er á æviskeiðinu en heyrnardeyfa er meðal þess sem gjarnan fylgir háum aldri og er langtum algengari hjá fólki á efri árum en æskufólki. Sífellt fleiri Íslendingar ná háum aldri og hlutfall aldraðra hefur farið hækkandi hérlendis undanfarna áratugi. Hinn 1. desember 2014 voru tæp 9% landsmanna 70 ára eða eldri. Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að árið 2020 verði þetta hlutfall 10,2% og 13,7% árið 2030. Enda þótt ýmis læknisfræðileg og tæknileg úrræði gagnist fólki vel til að vinna bug á heyrnardeyfu á efri árum er við því að búast að fólki sem þarf á texta að halda til að geta notið sjónvarpssendinga á íslensku muni fara fjölgandi á næstu árum og áratugum og er full ástæða til að bregðast við því.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig til að vitna til orða varaformanns Heyrnarhjálpar, félags heyrnarskertra á Íslandi, sem er Ingólfur Már Magnússon. Hann hvetur þingmenn til þess, eins og hann segir, með leyfi forseta, „að sjá sóma sinn í að greiða fyrir þessari breytingu á lögum vegna þess að mismunun er óheimil. Það að heyrnarskertir séu útilokaðir frá því að njóta íslensks sjónvarpsefnis er mismunun.“ Því skorar hann á þingheim að samþykkja þetta frumvarp. Í grein sem birtist meðal annars á Vísi og víðar, fer hann aðeins yfir það í hvaða stöðu fólk er sem greinir hljóð en getur ekki endilega náð þeim öllum og alls ekki í sjónvarpi, þrátt fyrir góð heyrnartæki. Hann vekur athygli á því að textun mundi breyta aðgengi allt að 50 þúsund Íslendinga. Það er enginn smáræðisfjöldi sem við erum hér að tala um. Okkur sem kannski hlustum meira en margur á fréttir og fréttatengda þætti eins og eru gjarnan eftir kvöldmat eða annað íslenskt efni, það eru alls konar spennuþættir og ýmislegt annað í boði, finnst sjálfsagt að fylgjast með en þetta fólk getur ekki fylgst með þessu efni, það er alveg útilokað frá töluvert mikilli fjölmiðlaumræðu.

Ég vona að málið fái skjóta afgreiðslu. Frumvarpið er þverpólitískt og ætti því að eiga greiða leið í gegnum þingið og ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd fjalli um það og kalli til sín gesti svo fljótt sem auðið er því þetta er afar mikilvægt. Þetta er eitt af þeim málum sem okkur finnast mikilvægari en mörg önnur og eigi erindi við mjög marga sem við viljum gjarnan koma í veg fyrir að sæti mismunun í samfélaginu.

Ég legg til að frumvarpið fari til 2. umr. og allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.