144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

orlof húsmæðra.

339. mál
[19:23]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, laga frá 1972. Þetta er einfalt frumvarp sem einfaldlega felur í sér að lögin falli úr gildi. Málið hefur verið lagt fram á þingi í tvígang, á 138. löggjafarþingi og á því 141., og er nú endurflutt nær óbreytt frá hinu síðara.

Orlof húsmæðra á sér lengri forsögu en núgildandi lög gefa til kynna. Fyrsta ríkisstyrkta húsmæðraorlofið kom til framkvæmda árið 1958 þannig að sagan er mikil. Tilgangur þeirra laga var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsrétt líkt og launþegum. Þetta var vissulega mikilvægt á Íslandi árið 1958 en nú eru breyttir tímar. Margt hefur breyst til betri vegar. Jafnrétti kynjanna er langt á veg komið og það verður að gilda í báðar áttir. Þess vegna tel ég rétt að leggja til að þessi lög falli úr gildi og tel það fullkomlega tímabært.

Ýmsir í samfélaginu hafa tjáð sig um þetta mál og ýmis sveitarfélög ályktað í þessa átt. Ég vonast sannarlega til að það fái góða umfjöllun í þeirri nefnd sem því verður vísað til og að það fari í gegnum þingið.

Sem eitt dæmi vil ég nefna að bæjarstjórn Vestmannaeyja ályktaði á kvenréttindadaginn 19. júní 2008 að skora á Alþingi að afnema lögin. Það sama gerði Hveragerðisbær og svo mætti lengi telja.

Fyrstu lögin um orlof húsmæðra eru frá árinu 1960 og andinn sem augljóslega ríkti á þeim tíma sést vel í þessum lögum. Ýmislegt hefur breyst til batnaðar og jafnréttisbaráttan hefur gengið ágætlega. Betur má þó ef duga skal og jafnt skal yfir alla ganga. Því tel ég einsýnt að það sé rétt að fella þessi lög úr gildi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.