144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

479. mál
[19:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Í tillögunni felst að skorað er á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við þessi tvö ágætu vinalönd okkar um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum. Á þessu stóra hafsvæði sem umlykur löndin þrjú er mikil umræða um auknar siglingar, aukna skipaumferð og aukna nýtingu þeirra verðmæta sem eru bæði í sjó og á landi. Því fylgir talsvert umstang. Á fundum okkar í Vestnorræna ráðinu er ljóst að þetta málefni hvílir þungt á vinum okkar og frændþjóðum, þ.e. með hvaða hætti við ætlum að takast á við þessar hugsanlega miklu breytingar. Til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum þarf að grípa til aðgerða og við leggjum hér einfaldlega til að reynt sé að nota eldsneyti sem mengar minna og tækjabúnað sem fjarlægi brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa sem stunda veiðar og sjósiglingar.

Þessi ályktun var samþykkt á fundi okkar í Vestmannaeyjum 3. september sl. og við byggjum þetta meðal annars á vinnu sem má sjá í skýrslu frá árinu 2007 frá Efnafræðifélagi Bandaríkjanna þar sem rakið er hvaða áhrif brennisteinsmengun frá skipum hefur á fólk. Íbúar á strandsvæðum þykja sérlega varnarlausir gagnvart þessari mengun og þess vegna liggur beint við að strandríki eins og Ísland, Grænland og Færeyjar leggi sitt af mörkum til að reyna að draga úr menguninni.

Það er mjög mikilvægt að efla samstarf þessara þriggja þjóða. Það hefur verið gott í gegnum tíðina, við höfum náð ýmsum mikilvægum málum í gegn, sumum hverjum að frumkvæði Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sem við höfum þá borið upp á fundum okkar í Vestnorræna ráðinu. Síðan eru þær ályktanir sendar inn í öll þjóðþingin þrjú til meðferðar og í flestöllum tilvikum eru þær samþykktar á öllum þingum.

Þess vegna er von okkar að þessi ágæta tillaga fái ágæta meðferð í utanríkismálanefnd. Ég óska eftir því að henni verði vísað þangað vegna þess að þetta er eitt af stóru áhersluatriðunum sem eru sameiginleg með þessum þrem þjóðum. Auðvitað snerta breytingarnar hvað varðar skipaumferð í Norðursjó þetta svæði hvað mest.