144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

vísun máls til nefndar.

[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að taka málið til skoðunar. Eins og ég og hæstv. forseti og nokkrir aðrir þingmenn munum gerðum við einmitt breytingar á þingskapalögum árið 2007. Áður fór fram sérstök atkvæðagreiðsla að lokinni 1. umr. að viðstöddum meiri hluta þingmanna þar sem menn tóku afstöðu til þess með formlegum hætti í hvaða nefnd málið ætti að ganga, en frá 2007 hafa mál gengið sjálfkrafa.

Ég held að einmitt vegna þess að ýmis sjónarmið geta verið um það hvar mál eigi best heima, og þau geta út af fyrir sig átt heima í tveimur eða þremur nefndum, þá fari best á því að forsetinn og þingið sjálft hafi sjónarmið um það þegar mælt er fyrir máli og ef þau eru önnur en flutningsmanna séu þau mál sérstaklega skoðuð og tekin afstaða til þess.