144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

rannsókn á endurreisn bankanna.

[15:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Svo virðist sem hæstv. forsætisráðherra hafi heyrt í einhverjum öðrum Brynjari Níelssyni en ég. Að minnsta kosti virðumst við hafa mjög ólíkan skilning á því sem var niðurstaða hans í hinu svokallaða Víglundarmáli. Það gæti kannski hafa hent hv. þm. Brynjar Níelsson að hafa borðað kjöt í útlöndum og skipt um persónuleika milli þess sem hæstv. forsætisráðherra heyrði í honum og ég. Mér fannst hann hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri útilokað að taka undir sjónarmið Víglundar og að ekkert benti til svika og blekkinga við endurreisn bankanna. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra í ræðustól og segir að hann sé sammála þeirri niðurstöðu hv. þingmanns að rannsaka þurfi málið áfram.

Eins og kunnugt er lagði Víglundur fram gögn sem hann sagði sanna víðfeðmt samsæri þar sem stjórnmálamenn, embættismenn ráðuneyta og Fjármálaeftirlitið hefðu framið stórfelld lögbrot við endurreisn bankanna eftir hrun. Þannig hefðu þrotabúum bankanna verið afhentar eignir þeirra á hrakvirði. Þeir sem hafa eitthvert fréttaminni töldu sig hafa heyrt þessar upplýsingar áður en nú bar svo við að hæstv. forsætisráðherra sagði þetta sláandi tíðindi, þau væru mjög alvarleg og þörfnuðust rannsóknar.

Í fjölmiðlum í dag er spurt hvort ekki sé ástæða fyrir hæstv. forsætisráðherra til að biðjast afsökunar á því að hafa gefið þessum ásökunum byr undir báða vængi vegna þess að í þessu fælust svo alvarlegar ásakanir. Hæstv. forsætisráðherra virðist vera hér við sama heygarðshornið og því hlýtur maður að spyrja: Með hvaða hætti telur hann að eigi að rannsaka þessar ásakanir frekar? Hvar á sú rannsókn að fara fram? Er þetta að mati hæstv. forsætisráðherra tilefni lögreglurannsóknar? Á að skipa sérstaka rannsóknarnefnd á vegum þingsins? Mér leikur hugur á að fá að heyra nánar um hugmyndir hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra í þessum efnum.