144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

stjórnarstefnan.

[15:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þessi ríkisstjórn tók við árið 2013 var hagvöxtur rúmlega 3%. Hagstofan gefur 0,7% í fyrra en Seðlabankinn gefur þó 2% en hvort sem er er það minni hagvöxtur en var þegar ríkisstjórnin tók við.

Stýrivextir eru liðlega 5% í innan við 1% verðbólgu. Raunstýrivextir hafa ekki verið jafn háir í landinu frá hruni. Tvær megináherslur forsætisráðherra fyrir kosningar voru að stækka kökuna og lækka vextina en hann gerir þveröfugt. Ef hann er svo sannfærður um að þetta sé allt saman svona gott og að hér drjúpi smjör af hverju strái, er þá nokkuð því til fyrirstöðu, hæstv. forsætisráðherra, að fallast á kröfur Starfsgreinasambandsins um 35 þús. kr. kauphækkun til hinna lægstlaunuðu? Eru þær ekki fyllilega réttmætar og eðlilegar fyrst það gengur svona vel eins og forsætisráðherrann heldur hér fram?