144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að kalla eftir þessari umræðu um fjármál sveitarfélaga og gera sérstaklega hér að umræðuefni þann mikla fjárhagsvanda sem blasir við Reykjanesbæ og þær aðgerðir sem bæjarstjórnin hefur gripið til til að ná tökum á rekstrinum til að uppfylla skyldur sveitarstjórnarlaga.

Almennt vil ég segja um fjármál sveitarfélaga að þau hafa þróast til betri vegar hin síðari ár. Efnahagshrunið var sveitarfélögunum ekki síður erfitt en flestum öðrum stofnunum samfélagsins og hafa þau þurft að taka verulega á við að skipuleggja starfsemi sína og forgangsraða að nýju. Sveitarfélögin eru og voru hins vegar misjafnlega á vegi stödd og því hefur verkefnið verið ólíkt frá einu sveitarfélagi til annars og erfitt að alhæfa milli sveitarfélaga þegar kemur að ástandinu á hverjum stað. Skuldir sveitarfélaganna hafa almennt farið lækkandi. Ég nefni í því sambandi að tímabilið 2008–2013 lækkuðu skuldir A-hluta sveitarfélaga um 30 prósentustig og nam skuldahlutfallið í árslok 2013 að meðaltali um 117%. Skuldahlutfall samstæðu sveitarfélaga A- og B-hluta lækkaði að sama skapi og nam það í árslok 2013 að meðaltali 126% sem er undir þessari 150% viðmiðunarreglu sem við þekkjum.

Ég held að það sé ágætt að hafa þennan almenna inngang að þessu ástandi sem við glímum við í Reykjanesbæ. En hvað fjármál Reykjanesbæjar varðar sérstaklega hafa þau um langt skeið verið til umfjöllunar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga eins og hv. málshefjandi gat um og nefndin hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af stöðu mála. Samkvæmt ársreikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2013 voru skuldir og skuldbindingar í hlutfalli af heildartekjum allt of miklar en skuldaviðmið ársins 2013 var 255%.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað í apríl 2014 að láta fara fram óháða úttekt á fjármálum bæjarins og í framhaldinu var unnin áætlun um hagræðingu í rekstri. Um tvíþættar aðgerðir er að ræða, hækkun skatttekna og lækkun rekstrarkostnaðar, og gera fyrstu drög ráð fyrir 900 millj. kr. hagræðingu í rekstri. Samhliða lagði eftirlitsnefndin fyrir bæjarstjórn að endurskoða fyrri aðlögunaráætlun sveitarfélagsins þar sem ljóst þótti að hún mundi ekki standast.

Í ljósi niðurstöðu ársreiknings 2013 og útkomuspár 2014 beindi nefndin því enn fremur til bæjaryfirvalda að gert yrði samkomulag milli Reykjanesbæjar og innanríkisráðherra um fjármál bæjarins í samræmi við 83. gr. sveitarstjórnarlaga. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 18. nóvember að óska eftir slíku samkomulagi og var það undirritað 30. desember eins og við þekkjum. Samhliða þessu samkomulagi og að eindreginni ósk sveitarstjórnarinnar heimilaði ráðherra jafnframt að lagt yrði álag á útsvar yfirstandandi árs. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem við þurfum að beita því ákvæði. Við þurftum að gera það líka vegna Sveitarfélagsins Álftaness, sem er reyndar eina sveitarfélagið sem hefur sérstaklega flaggað fjármálum sínum gagnvart eftirlitsnefnd, og eins vegna sveitarfélagsins Bolungarvík.

Þegar menn ræða fjárhagsvanda Reykjanesbæjar verður að hafa í huga að bæjarfélagið hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þeirri von að framtíðartækifæri í atvinnulífinu yrðu mikil. Það má segja að bærinn hafi fjárfest í von um að tækifærin yrðu stór og það er að hluta til sá vandi sem sveitarfélagið býr við núna. Þau verkefni hafa alls ekki skilað þeim árangri sem menn væntu og því hafa fjárfestingar orðið mjög þungur baggi á sveitarfélaginu.

En það má heldur ekki gleyma því að samfélagið suður frá hefur tekist á við margvíslegar aðrar áskoranir sem ég held að menn hafi kannski ekki alveg gert sér grein fyrir hversu stórkostlegar voru. Þá er ég sérstaklega að tala um það þegar herinn hvarf af Keflavíkurflugvelli og þá atvinnusköpun sem hann skaffaði Suðurnesjamönnum. Það getur tekið tíma og hefur svo sannarlega tekið tíma fyrir Reykjanesbæ að vinna úr því.

Eins og fyrirspyrjandi nefndi, og ég held að sé mjög brýnt að hafa hugfast, hefur atvinnuleysi verið mjög mikið á Suðurnesjum, því miður, í samanburði við aðra landshluta sem auðvitað hefur spilað verulega inn í fjármál sveitarfélagsins. Gagnvart spurningum málshefjanda held ég að það sé alveg ljóst að mjög margt þurfi að spila inn í til að Reykjanesbær nái að rétta úr sínum fjárhagslega vanda. Á sviði innanríkisráðuneytisins erum við og eftirlitsnefndin að glíma við það hvað við getum gert til að létta á skuldum sveitarfélagsins en það gerist þó með þeim hætti að álögur aukast á íbúana. Það er auðvitað alveg ljóst að til þess að einhver veruleg breyting verði á afkomu Reykjanesbæjar þurfa frekari atvinnutækifæri að koma til.

Hv. málshefjandi nefndi sérstaklega aðra þætti sem má í raun og veru segja að séu meira byggðalegs eðlis þegar verið er að tala um fasteignagjöld, ekki satt? (Forseti hringir.) Svo er líka þetta varðandi höfnina sem að hluta til kemur inn á mitt borð. (Forseti hringir.) Þá finnst mér það fyrst og fremst lýsa því að til að taka á vanda Reykjanesbæjar þarf svo miklu meira að koma til en að líta í mitt ráðuneyti, (Forseti hringir.) við þurfum að horfa miklu víðar.