144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:14]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að kalla eftir þessari umræðu um fjármál sveitarfélaga. Þó vil ég velta því upp hvort ekki sé umhugsunarefni hvort málefni einstakra sveitarfélaga eigi að rata í umræðu sem þessa, en vissulega er staðan alvarleg. Málefni Reykjanesbæjar hafa lengi verið til umfjöllunar því að fyrir hefur legið að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins hafa verið allt of miklar miðað við hlutfall af heildartekjum.

Með tilkomu nýju sveitarstjórnarlaganna í ársbyrjun 2012 voru sett viðmiðunarmörk um að skuldahlutfall skyldi ekki vera hærra en 150%. Við gildistöku laganna var skuldahlutfall 21 sveitarfélags yfir þeim mörkum. En óhætt er að segja að á heildina litið hafi fjármál sveitarfélaganna verið að þróast til betri vegar frá þessum tíma því að í lok árs 2013 voru 11 sveitarfélög undir þessum mörkum og líklega eru þau fleiri nú.

Ramminn sem settur var á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laganna lagði þær skyldur á sveitarstjórnir að leggja fram áætlun um það hvernig þau hygðust aðlaga skuldastöðu sína nýjum fjármálareglum innan tíu ára frá gildistöku laganna. Heildarárangur sem er vel sýnilegur í reikningum sveitarfélaganna sýnir að sveitarstjórnarmenn vinna almennt af mikilli ábyrgð og festu til að ná tilætluðum árangri, en verkefni þeirra og áskoranir eru vissulega mjög mismunandi.

Það liggur alveg ljóst fyrir að sveitarstjórnir bera ábyrgð á eigin fjármálum. Hver sveitarstjórn þarf að standa með verkum sínum. Þó eru ákvæði og vörður í sveitarstjórnarlögum sem stuðla eiga að því að menn komist ekki í vandræði. Hlutverk eftirlitsnefndarinnar er almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur.

Nú þegar hafa fáein sveitarfélög sem lentu í alvarlegum fjárhagsvandræðum náð góðum árangri og bætt stöðu sína með markvissum aðgerðum sem unnar hafa verið í samstarfi við eftirlitsnefndina og með aðkomu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það hefur því sýnt sig að ef gripið er til aðgerða í tíma (Forseti hringir.) má ná góðum árangri.