144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að geta þess í upphafi ræðu minnar að þótt Reykjanesbær sé skuldugur og sé kominn í þessa slæmu fjárhagsstöðu býr þar öflugt og gott fólk og þar er gott að búa. Til dæmis eru skólarnir framúrskarandi og ná góðum árangri og þar er góður og frjór jarðvegur fyrir atvinnuuppbyggingu og sérstaklega nýsköpun með tilkomu Keilis og fleiri. Þannig að við skulum hafa það á hreinu og sveitarfélagið á algjörlega framtíðina fyrir sér.

Sveitarstjórnarlög kveða skýrt á um það eftirlit sem á að hafa með sveitarfélögum og framkvæmd fjárhagslegra málefna þeirra. Eftirlitsnefndin hefur þar mjög skýrt hlutverk að fylgjast með og fá alla ársreikninga og á að hafa góðan aðgang að þeim gögnum. Við hljótum að ætla að þær áætlanir sem yfirvöld í hverju sveitarfélagi leggja fram hverju sinni séu í lagi fái þær náð fyrir augum eftirlitsnefndar. Það má náttúrlega alltaf spyrja þeirra spurninga hvort það séu stjórnvöld á hverjum tíma sem beri ábyrgð á eftirlitsnefndinni eða hver það er sem ber þá ábyrgð ef þær áætlanir standast ekki.

Hins vegar þekkja öll sveitarfélög að áætlanir standast ekki alltaf. Áætlaðar tekjur berast ekki út af ýmsum utanaðkomandi aðstæðum sem breytast á tímabilinu. Kostnaður getur aukist t.d. vegna fólksfjölgunar, en hún hefur verið mikil í Reykjanesbæ. Þar hefur orðið mikil fólksfjölgun sem hefur kostað uppbyggingu innviða, sem hefur tekist vel eins og ég nefndi með skólana. Það hefur líka komið fram að meðaltekjur í Reykjanesbæ eru minni en annars staðar. Ef meðaltal tekna hjá tíu stærstu sveitarfélögum landsins gilti um tekjur hjá Reykjanesbæ, væru tekjurnar 900 milljónir meiri á hverju ári. Það er sama upphæð og Sóknin, áætlun um uppbyggingu, gerir ráð fyrir. En einnig hafa fjárfestingar sveitarfélagsins farið í það að tryggja atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) til þess að auka meðaltekjurnar.