144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það að staðan í Reykjanesbæ er grafalvarleg. Við sem höfum búið þarna suður frá höfum fylgst með málum ár eftir ár og aldrei getað skilið nokkurn skapaðan hlut í því sem þarna var að gerast því eins og hefur komið fram þá var ráðist í miklar framkvæmdir og allt byggt á von og væntingum eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra. Það var allt byggt upp á von og væntingum og síðan hrundi það allt saman.

Ég sat bæjarfundinn sem haldinn var í október á síðasta ári þar sem komu hvorki fleiri né færri en 400 manns og hlustuðu á þá áætlun sem hefur verið lögð fram núna undir nafninu Sóknin. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna að ný bæjarstjórn í Reykjanesbæ er að takast á við þennan vanda af mikilli alvöru. Þeirra verkefni er gríðarlega erfitt og er kannski sérstaklega fólgið í því að reyna að hjálpa fólki eða segja fólki sannleikann um hvernig staðan er, því meiri partur af íbúum Reykjanesbæjar er í sjokki yfir þessu. Sumir kannski neita jafnvel að trúa því í hvernig óefni er komið miðað við allt sem á undan er gengið, því það fór aldrei fram hjá neinum að það var alltaf sagt í viðtölum og yfirlýsingum frá fyrrverandi bæjarstjórn að allt væri í góðu lagi, það væri allt að gerast. Minni hlutinn sem sannarlega benti á að ekki væri allt í lagi var alltaf talinn vera að spila einhvern pólitískan skollaleik og þetta væru blekkingar hjá þeim. En annað hefur nú komið á daginn.

Ég er alveg sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sveitarfélög eiga að hjálpa hvert öðru, ekki síst okkur á Suðurnesjum, þessu góða svæði. Það er gott að búa þarna eins og kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, þar eru góðir skólar og góðir innviðir, það er allt til staðar í Reykjanesbæ. Við þurfum að hjálpast að við að styrkja sveitarfélagið og hjálpa þeim að komast út úr erfiðleikunum og snúa bökum saman eins og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur beðið fólk að gera.